Ódýr olía skaði endurnýjanlega orku

Breski athafnamaðurinn Richard Branson hefur fjárfest mikið í endurnýjanlegum orkugjöfum.
Breski athafnamaðurinn Richard Branson hefur fjárfest mikið í endurnýjanlegum orkugjöfum. mbl.is/AFP

Sádar eru að reyna að koma höggi á þróun endurnýjanlegra orkugjafa sem hafa átt vaxandi vinsælda að fagna í heiminum með því að lækka verulega verð á olíu. Þetta segir breski athafnamaðurinn Richard Branson. Ríkisstjórnir verði að leggja kolefnisgjald á olíunotendur. 

„Þeir hafa gert þetta áður og það skaðaði. Þeir vilja ekki bara skemma fyrir bergbrotsiðnaðinum í Bandaríkjunum heldur einnig fyrir viðskiptum með hreina orku. Hrapandi olíuverð munu gera hreinni orku mun erfiðara fyrir,“ segir Branson.

Olíuverð í heiminum hefur farið hríðlækkandi undanfarið og hefur verð á Brent-hráolíu til að mynda ekki verið lægra síðan um mitt ár 2009, 60 dollarar tunnan. Telja sérfræðingar að verðið muni haldast svipað eða jafnvel lækka enn frekar á næstunni.

Branson segir að nú sé tími til að ríkisstjórnir heims sem stefna að því að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum sem valda loftslagsbreytingum að leggja á kolefnisgjald á notendur jarðefnaeldsneytis þar sem að verðlækkunin á olíu dragi úr áhrifum þess.

„Ef ríkisstjórnir vilja taka upp kolefnisgjald [á loftslagsþinginu] í París á næsta ári þá væri það besti tíminn til þess. Það sem endurnýjanlegi orkugeirinn þarf á að halda er bil á milli sín og olíu og kola,“ segir Branson sem á hluta í Virgin-flugfélaginu.

Hann hefur jafnframt fjárfest fyrir hundruð milljóna punda í hreinum orkugjöfum á undanförnum árum. Hann telur að endurnýjanlegir orkugjafar hafi komið eins illa við olíuframleiðslulönd undanfarið og bergbrotið í Bandaríkjunum.

„Áður en olíuverð byrjaði að hrynja var sólarorka raunar ódýrari [en olía]. Ef olía lækkar niður í 30-40 dollara á tunnuna þá gerir það hreinni orku erfiðara fyrir. Ríkisstjórnir þurfa að hugsa sig vel um hvernig þær ætla að aðlagast lágu olíuverði,“ segir hann.

Frétt The Guardian af lækkandi olíuverði og áhrifum þess á hreina orku

Fyrri frétt mbl.is: „Töluvert svigrúm“ til lækkunar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert