Dauðadæmt stjörnupar

Mynd listamanns af tvíeykinu í hringþokunni Henize-2-428.
Mynd listamanns af tvíeykinu í hringþokunni Henize-2-428. ESO/L. Calçada

Tvær óvenjuefnismiklar stjörnur hafa fundist í miðju hringþokunnar Henize-2-428 og snúast þær hvor um aðra. Þær eru að mjakast nær hvor annarri en þær munu renna saman í eina eftir um 700 milljón ár og mynda sprengistjörnu.

Hópur stjörnufræðinga undir forystu M. Santander-García (Observatorio Astronómico Nacional, Alcalá de Henares á Spáni; Instituto de Ciencia de Materiales de Madrid (CSIC) í Madrid á Spáni) fann nýverið þétt par hvítra dverga — lítilla en mjög þéttra leifa stjarna — sem samanlagt eru um 1,8 sinnum efnismeiri en sólin okkar. Þetta er massamesta tvíeyki af þessu tagi sem fundist hefur til þessa. Samruni stjarnanna tveggja í framtíðinni mun leiða til myndunar sprengistjörnu af gerð Ia, að því er kemur fram í frétt á vef evrópsku stjörnustöðvarinnar á Suðurhveli ESO.

Tvær stjörnur í skökku og glóandi skýi

Stjarnvísindamennirnir sem fundu þetta efnismikla tvíeyki voru upphaflega að reyna að leysa annað vandamál. Þeir vildu komast að því hvers vegna sumar stjörnur enda æviskeið sín í sérkennilegum og ósamhverfum þokum. Eitt þeirra fyrirbæra sem rannsakað var nefnist Henize 2-428 sem er harla óvenjuleg hringþoka.

„Þegar við skoðuðum stjörnuna í miðju þokunnar með Very Large Telescope ESO sáum við ekki eina stjörnu heldur tvær í þessu sérkennilega skakka og glóandi skýi,“ sagði Henri Boffin, stjörnufræðingur hjá ESO og meðhöfundur greinar um rannsóknina sem birtist í tímaritinu Nature í dag.

Uppgötvunin styður þá kenningu að tvístirni útskýri sérkennilega lögun margra hringþoka. Enn áhugaverðari niðurstöður áttu þó enn eftir að koma í ljós.

„Frekari athuganir sem gerðar voru með sjónaukum á Kanaríeyjum gerðu okkur kleift að mæla brautir stjarnanna tveggja, leiða út massa þeirra og fjarlægðina á milli. Þá kom það óvæntasta í ljós,“ sagði Romano Corradi, annar höfunda greinarinnar og vísindamaður við Instituto de Astrofísica de Canarias (Tenerife, IAC).

Hrynur saman undan eigin þunga og springur

Í ljós kom að stjörnurnar voru báðar örlítið efnisminni en sólin okkar en hringsóla hver um aðra á aðeins fjórum klukkustundum. Fjarlægðin á milli þeirra er nógu lítið svo að samkvæmt almennu afstæðiskenningu Einsteins munu þær nálgast hver aðra, vegna útgeislunar þyngdarbylgna, uns þær renna saman í eina stjörnu eftir um 700 milljónir ára.

Við samruna stjarnanna verður til svo efnismikil stjarna að ekkert kemur í veg fyrir að hún hrynji saman undan eigin þunga og verði að sprengistjörnu.

„Hingað til hefur útskýringin á myndun sprengistjarna af gerð Ia fyrst og fremst verið kennileg,“ sagði David Jones, meðhöfundur greinarinnar og vísindamaður hjá ESO á þeim tíma þegar gögnunum var safnað. „Tvíeykið í Henize 2-428 er hins vegar raunverulegt dæmi um þetta!“

„Þetta er mjög dularfullt kerfi en rannsóknir á því munu skila mikilvægri þekkingu á sprengistjörnum af gerð Ia. Sprengistjörnur af þessu tagi eru mikið notaðar til að mæla stjarnfræðilegar vegalengdir og voru lykillinn að þeirri uppgötvun að alheimurinn er að þenjast út með sívaxandi hraða vegna hulduorku,“ sagði Santander að lokum.

Frétt um tvístirnið á vef ESO

Hringþokan Henize-2-428 eins og hún kemur fyrir linsu VLT-sjónauka ESO. …
Hringþokan Henize-2-428 eins og hún kemur fyrir linsu VLT-sjónauka ESO. Í miðju hennar er tveir hvítir dvergar sem munu einn daginn mynda sprengistjörnu. ESO
mbl.is