Janúar sá hlýjasti í sögunni

Jöklar heimsins bráðna víðast hvar hraðar en áður.
Jöklar heimsins bráðna víðast hvar hraðar en áður. mbl.is/Ómar

Nýliðinn janúarmánuður var sá heitasti á heimsvísu síðan mælingar hófust fyrir 135 árum. Þetta kemur fram í gögnum sem geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, gaf út í vikunni.

Janúar var einnig sá mánuður sem afbrigðilega mest hefur skorið sig úr hvað hita varðar síðan mælingar hófust. Mánuðurinn var þannig 1,13 gráðum heitari en meðaltal janúarmánaða á því tímabili, eða síðustu 135 ár. Hann slær þó metið ekki um mikið en síðastliðinn desembermánuður átti metið. Hann var 1,11 gráðum yfir meðaltalinu.

Þetta er fjórði mánuðurinn í röð sem hitastig hnattarins hefur verið meira en sem nemur einni gráðu yfir meðaltali. Þessir fjóru mánuðir eru einnig þeir einu sem hafa farið upp fyrir það mark síðan mælingar hófust.

Á sárafáum svæðum voru engar hitabreytingar eða þá meiri kuldi en venjulega. Þannig voru ekki merki um aukinn hita á Suðurskautslandinu, Skandinavíu, Austur-Afríku og í einhverjum hlutum Rússlands. Norðurheimsskautið sker sig þó allra mest út og er lang afbrigðilegast hvað varðar hita á hnettinum, eins og sjá má á meðfylgjandi korti sem miðar janúar við meðaltöl áranna 1951 til 1980.

Norðurheimsskautið sker sig út úr öðrum heimshlutum eins og sjá …
Norðurheimsskautið sker sig út úr öðrum heimshlutum eins og sjá má á kortinu. Kort/NASA-GISS stofnunin
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert