Vill græða heila í annað höfuð

Mannsheili verður mögulega græddur á nýjan búk í náinni framtíð.
Mannsheili verður mögulega græddur á nýjan búk í náinni framtíð. mbl.is/Rax

Ítalskur skurðlæknir fullyrðir að fólk sem láti djúpfrysta heilann úr sér geti „vaknað“ innan þriggja ára í nýjum líkama. Hann stefnir að því að framkvæma fyrstu höfuðígræðsluna innan tíu mánaða og vill þá hefja tilraunir með heilaígræðslur. Þessu er greint frá á fréttavef The Telegraph. 

Ef aðgerðin heppnast telur prófessor Sergio Canavero að hægt sé að þíða frosna heila og græða þá í höfuð. Hundruð manna sem voru á dánarbeðinum hafa látið frysta líkama eða heila í von um að læknavísindin geti einn daginn vakið þau til lífs og unnið bug á sjúkdómnum. 

Clive Coen, prófessor í taugavísindum við King's College í London, segir hinsvegar að talsmenn djúpfrystingar geti ekki bent á neinar rannsóknir þar sem heili spendýrs, hvað þá heill líkami, hafi verið endurlífgaður eftir að hafa verið geymdur í fljótandi nítri. 

„Óafturkræfur skaði verður í ferlinu þegar heili spendýrs er geymdur undir frostmarki. Þessi óskhyggja hjá djúpfrystingarfyrirtækjunum er óábyrg,“ segir Coen. 

Þrátt fyrir að margir sérfræðingar séu efins um að svo stórt líffæri geti verið þítt án skemmda segist Canavero trúa því að fyrsta höfuðið verði brátt vakið til lífs. Þó viðurkennir hann að sálfræðilegir og líkamlegir kvillar gætu fylgt því að græða heila í aðra manneskju. 

mbl.is