Flotið um í þyngdarleysi á Hlemmi

Á Rauðarárstígnum rétt hjá Hlemmi Mathöll er nú hægt að upplifa að fljóta í þyngdarleysi í sérstökum flottönkum. Slíkir tankar hafa meðal annars verið notaðir af NASA og af bandaríska hernum til að rannsaka mannshugann. 

Hið nýja Hydra Float Spa býður upp á þrjá flottanka þar sem fólki gefst kostur á fullkominni slökun. Vatnið í tankinum er blandað með Epsom salti sem lætur fólk fljóta og hitastig er það sama og húðin sem veitir þá upplifun að svífa um í draumkenndu þyngdarleysi.

Tankurinn takmarkar allt ytra áreiti og einungis skilningarvitin taka við.

Mbl.is spjallaði við eiganda Hydra Float Spa sem er Bandaríkjamaðurinn Ryan Kevinsson sem hefur búið á Íslandi í áratug og er orðinn íslenskur ríkisborgari. 

„Flestir tengja þessa tanka við John C.Lilly og tengja þetta þannig við dægurmenninguna,“ útskýrir Ryan. „Lilly er sannarlega á bak við heilmiklar rannsóknir á  þessu fyrirbæri og kom þessu inn í meginstrauminn á sjöunda áratuginum.  Hugmyndin sjálf, að svipta okkur öllu áreiti og áhrif þess á mannsheilann er í raun mun eldri og hefur verið rannsökuð af ríkisstjórnum, af heryfirvöldum, háskólum og vísindastofnunum.“

Við spjölluðum líka við Tómas Odd Eiríksson jógakennara sem var að skella sér í sitt fyrsta flot. „Ég veit ekki mikið um þetta en er spenntur að prófa. Ég veit að þetta á að loka á skynfærin og gefa manni algjört næði til að slaka á sem er svipuð hugmyndafræði og í jóga og hugleiðslu.“

Hydra Float Spa mun bjóða upp á þrjá flottanka fra og með 1. júní. 

mbl.is