Jurtaríkið frekar en dýraríkið

AFP

Lágkolvetnafæði getur stytt ævina um allt að fjögur ár og mun heilnæmara að neyta meirihluta fæðunnar úr jurtaríkinu fremur en dýraríkinu. Fjallað er um rannsóknina í Lancet Public Health-tímaritinu. 

AFP

Í frétt BBC um rannsóknina kemur fram að lágkolvetnafæði, svo sem Atkins-kúrinn, nýtur mikilla vinsælda meðal þeirra sem vilja léttast og hafa komið fram vísbendingar um að með þessu sé hægt að minnka áhættuna á að fá ákveðna sjúkdóma.

En bandaríska rannsóknin, sem hefur staðið í yfir 25 ár, bendir til þess að hollara sé að draga úr kolvetnaneyslu eða skipta út kjöti fyrir prótein og fitu úr jurtaríkinu. 

AFP

Alls tóku 15.400 Bandaríkjamenn þátt í rannsókninni og fylltu út spurningalista um mat og drykk sem þeir neyttu sem og skammtastærðir. Í rannsókninni er byggt á því að fólk haldi utan um það magn sem það innbyrðir af kolvetnum.

Út frá þessum upplýsingum áætluðu rannsakendur það magn hitaeininga sem viðkomandi fékk úr kolvetnum, fitu og próteini. Eftir að hafa fylgt hópnum eftir í 25 ár kom í ljós að þeir sem fengu 50-55% af orkunni úr kolvetnum voru með heldur betri lífslíkur en þeir sem voru á há- og lágkolvetnafæði. 

Kolvetni má meðal annars finna í grænmeti, ávöxtum og sykri en kolvetni koma að mestu leyti úr mjölvaríkri fæðu, svo sem kartöflum, brauði, hrísgrjónum, pasta og korni.

Í rannsókninni er áætlað að frá 50 ára aldri séu þeir sem neyta kolvetna í hópi sem lifir að meðaltali í 33 ár til viðbótar. Það er fjórum árum lengur en þeir sem fá 30% eða minna af orkunni úr kolvetnum (extra-low-carb). 2,3 árum lengur en þeir sem fá 30-40% af orkunni úr (low-carb) kolvetum og 1,1 ári lengur en þeir sem fá meira en 65% eða meira úr kolvetnum (high-carb).

AFP

Niðurstaðan er svipuð þeim sem fram hafa komið í fyrri rannsóknum sem hafa verið gerðar víða um heim. 

Vísindamennirnir báru einnig saman lágkolvetnafæði, þar sem stór hluti fæðunnar innheldur  prótein og fitu úr dýraafurðum og fæðu þar sem stór hluti próteina og fitu kom úr jurtaríkinu.

Með því að borða meira af nautakjöti, lambi, svínakjöti, kjúklingum og osti í stað kolvetna aukast líkurnar á að deyja fyrr en annars væri. En ef fólk vill draga úr kolvetnaneyslu með  því að borða prótein- og fituríka fæðu úr jurtaríkinu, svo sem grænmeti og hnetur, minnkar áhættan aftur.

Því sé mælt með því að leita frekar í jurtaríkið fremur en dýraríkið eftir próteinum og fitu.

Alls konar fróðleik um mataræði er að finna á vef embættis landlæknis 

mbl.is