Öryggisbrestur Facebook náði til Íslands

Hundruð starfsmanna unnu við það í verktakavinnu fyrir Facebook að …
Hundruð starfsmanna unnu við það í verktakavinnu fyrir Facebook að hlusta á hljóðupptökur notenda Messenger-forritsins og skrifa þær niður. Ein slík upptaka kom frá Íslandi. Persónuvernd skoðar málið. AFP

Persónuvernd hefur fengið upplýsingar frá persónuverndarstofnuninni á Írlandi um að nýlegur öryggisbrestur hjá Facebook hafi náð hingað til lands. Um er að ræða hljóðupptöku eins manns frá Íslandi sem notaðist við svokallaða „Voice to text“-þjónustu í skilaboðaforritinu Messenger. Persónuvernd ætlar að hefja frumkvæðisathugun vegna málsins. Frá þessu er greint í tilkynningu.

Hin svokallaða „Voice to text“-þjónusta í Messenger gerir einstaklingum kleift að taka upp hljóðskilaboð, sem síminn umbreytir svo í ritaðan texta. Nýlega var upplýst að Facebook hefði notast við verktaka til að yfirfara slíkar hljóðupptökur, en fjallað var um málið á vef Bloomberg 13. ágúst síðastliðinn.

Í umfjöllun Bloomberg kemur fram að hundruð starfsmanna hafi unnið við það í verktakavinnu að hlusta á upptökur notenda samfélagsmiðilsins og skrifa þær niður handvirkt. Starfsmennirnir vissu ekki hvaðan upptökurnar voru komnar og vissu ekki hvaða tilgangi starf þeirra þjónaði. Facebook staðfesti frétt Bloomberg og sagði að fyrirtækið ætlaði að hætta að skrifa upp það sem notendur þess segja á hljóðupptökum. Þessi háttsemi gæti brotið gegn nýju evrópsku persónuverndarlöggjöfinni.

Facebook sagði að verktakarnir hefðu verið ráðnir til þess að athuga hvort gervigreindin sem hlustar á upptökurnar væri að túlka orð notenda með réttum hætti. Gæðaeftirlit. Fleiri tæknifyrirtæki, til dæmis Apple og Google, hafa verið gagnrýnd fyrir svipaða háttsemi og að gera notendum sínum ekki grein fyrir því á greinilegan hátt að einhver mennskur gæti verið að hlusta á upptökur þeirra.

Facebook er með Evrópuhöfuðstöðvar sínar á Írlandi og því var málið fyrst skoðað þar. Í tilkynningu Persónuverndar segir þó að þar sem ákvörðun um vinnslu persónuupplýsinganna hafi ekki verið í höndum Facebook á Írlandi heldur móðurfélagsins í Bandaríkjunum hafi samræmingarkerfi evrópsku persónuverndarreglugerðarinnar ekki verið virkjað.

Því ber persónuverndarstofnun hvers og eins ríkis innan EES, sem öryggisbresturinn nær til, ábyrgð á að fylgja málinu eftir, en alls mun málið snerta hljóðupptökur frá um það bil 50 einstaklingum á Evrópska efnahagssvæðinu, þar af einum frá Íslandi, sem áður segir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert