Zuckerberg ræðir samfélagsmiðlalöggjöf

Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook.
Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook. AFP

Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook, kemur til Washington á morgun til þess að ræða við embættismenn um framtíðarlöggjöf um samfélagsmiðla. Fimm mánuðir eru síðan hann kom fyrir fulltrúadeild Bandaríkjaþings þar sem hann var spurður spjörunum úr um gagnavernd fyrirtækisins og glöp í persónuvernd í tengslum við samskipti Facebook við breska fyrirtækið Cambridge Analytica. Samtöl Zuckerberg í Washington verða ekki á opinberum vettvangi.

Samkeppnisyfirvöld í Bandaríkjunum kanna um þessar mundir athafnir Facebook og á bandaríkjaþingi er til umræðu persónuverndarlöggjöf. Fyrir tveimur mánuðum var fimm milljarða bandaríkjadala há sekt lögð á fyrirtækið fyrir að hafa brotið gegn persónuverndarlögum, en í sátt sem var gerð í málinu var þess krafist af Facebook að stjórn persónuverndarmála og yfirsýnar hjá fyrirtækinu yrði efld til muna.

Í dag komu hátt settir einstaklingar í Facebook, Google og Twitter fyrir öldungadeildarþingmenn þar sem þeir voru spurðir spurninga um ábyrgð á stafrænum vettvangi, í ljósi netofbeldis og öfgahyggju á internetinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert