PISA 2018 - vinnum með réttu hlutina

Förum saman á bókasafnið og veljum bækur. Þannig sýnum við …
Förum saman á bókasafnið og veljum bækur. Þannig sýnum við að bækur og lestur eru mikilvæg.

Nýlega voru birtar upplýsingar um árangur íslenskra nemenda í PISA-könnunum árið 2018.

PISA er stór alþjóðleg könnun sem 79 lönd taka þátt í. Í niðurstöðunum kom fram að meðalskor íslenskra unglinga í lestri/lesskilningi er 474 stig og að þar er Ísland í 35. sæti af 79 löndum. Meðaltalið meðal ríkja í Efnahags- og framfarastofnuninni, OECD, var 487 stig. Á Íslandi var skor drengja 454 stig og stúlkna 494 stig. Samkvæmt könnuninni geta 34% íslenskra drengja ekki lesið sér til gagns og 19% stúlkna. Af hinum þjóðunum á Norðurlöndunum skora Finnar best og eru með meðalskor upp á 520 stig og eru í sjöunda sæti af 79 löndum sem taka þátt í PISA. Finnskar stúlkur eru í þriðja sæti með skor upp á 546 stig og finnskir drengir eru með skor upp á 495 stig og eru í 9. sæti. Hin löndin á toppnum með Finnlandi eru Kína með 555 stig og Singapúr með 549 stig. Á botninum eru síðan eftirfarandi lönd: Filippseyjar með 340 stig og Dóminíska lýðveldið með 342 stig. Í náttúrufræði erum við með 475 stig og erum númer 35 af 79 löndum og í stærðfræði erum við með 495 stig og númer 26 af 79 löndum.

Þetta er grafalvarleg staða og við verðum að taka okkur verulega á ef við eigum að geta snúið vörn í sókn. Mikilvægt er að nota vísindi sem útgangspunkt fyrir þær aðgerðir sem verður ráðist í.

Það sem þarf að mínu mati að gera er m.a.:

1. Efla hreyfingu. Láta öll börn/unglinga í leik- og grunnskólum hreyfa sig í 60 mínútur á dag. Hreyfing er jákvæð fyrir taugakerfið, heilsu og vellíðan.

2. Efla samveru – gefa okkur tíma til að njóta stundar saman hvort sem það er í góðu yfirlæti heima við eða í sundlauginni. Samvera er jákvæð fyrir taugakerfið og vellíðan.

3. Lesa fyrir börn frá unga aldri. Það að lesa fyrir börn er jákvætt fyrir málþroska þeirra og áhuga á bókum. Förum saman á bókasafnið og veljum bækur. Þannig sýnum við að bækur og lestur eru mikilvæg.

4. Tala meira við börnin, ekki gleyma strákunum. Heyra hvað þau voru að fást við og hvernig gekk í skólanum. Það að foreldrar/forráðamenn sýni áhuga er mikilvægt.

5. Brjóta lestrarkóðann. Kennum bókstafi/þeirra hljóð í upphafi lestrarnáms. Rannsóknir sýna mikilvægi þess að kunna bókstafi og hljóð þeirra til þess að börnin nái að brjóta lestrarkóðann.

6. Kalla fram ástríðuna hjá kennurum í þeirra mikilvæga starfi.

7. Útivist – gönguferðir – fjöruferðir. Brjótum upp skólahversdaginn með skemmtilegum og áhugaverðum gönguferðum um nágrennið.

8. Setja lestur í forgang í skólunum fyrstu 1-3 árin. Sjá til þess að allir nái að brjóta lestrarkóðann (fyrir utan þau 3-5% sem af lífeðlisfræðilegum ástæðum eiga í lestrarvanda).

9. Tryggja hjálp við heimanám í skólunum fyrir þau sem ekki fá hjálp heima.

10. Hætta að mæla leshraða. Mæla frekar hversu margar bækur las barnið síðasta mánuð og hvaða þrjár voru skemmtilegastar.

11. Búa til og nota góðar lestrarbækur með mismunandi erfiðleikastig í skólanum. Á hverju stigi þyrfti að vera hægt að velja úr 20 áhugaverðum bókum.

12. Skapa áhuga, veita áskoranir miðað við færni.

13. Fjarlægja snjallsímana úr skólanum – ný rannsókn sýnir fram á „spekileka“ (e. „brain-drain“) þegar síminn er nálægt barninu. Sem sagt tekur vitsmunagetu og vinnuminni.

14. Auka þjálfun á mikilvægum þáttum náms. Það er samfélagslegt verkefni, við þurfum að gefa okkur tíma.

Her­mund­ur Sig­munds­son er pró­fess­or við Há­skól­ann í Reykja­vík og Tækni - og vís­inda­há­skól­ann í Þránd­heimi. hs@ru.is

Hermundur Sigmundsson segir að nær sé að spyrja hvað margar …
Hermundur Sigmundsson segir að nær sé að spyrja hvað margar bækur barnið hefur lesið síðasta mánuðinn en að mæla lestrarhraða. Kristinn Magnússon
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »