300 þúsund síður af jarðhræringum síðustu 100 ára

Páll Einarsson, prófessor emeritus við jarðvísindadeild Háskóla Íslands, er annar …
Páll Einarsson, prófessor emeritus við jarðvísindadeild Háskóla Íslands, er annar upphafsmaður verkefnis þar sem skjálftarit frá skjálftamælum á Íslandi á tímabilinu 1910-2010 verða gerð aðgengileg á heimasíðu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Um 300 þúsund pappírsrit frá skjálftamælum á Íslandi frá hundrað ára tímabili, 1910-2010, verða brátt aðgengileg á nýjum vef Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands. Hluti gagnanna er nú þegar aðgengilegur. 

Á pappírsritunum má finna skjálftarit, það er línurit úr skjálftamælum, sírit, sem sýna hreyfingu jarðarinnar þar sem mælarnir eru staðsettir. Úr skjálftaritunum má því lesa hvernig og hvenær jörðin bifaðist.

„Þetta er gríðarlegt magn sem safnast hefur á þessu tímabili þar sem allt var skráð beint á pappír sem tekur sitt pláss,“ segir Páll Einarsson, prófessor emeritus við jarðvísindadeild Háskóla Íslands, sem átti frumkvæði að verkinu fyrir þremur árum, ásamt Sigurði Jakobssyni, fyrrverandi jarðefnafræðingi hjá Jarðvísindastofnun.

Framþróun í tækni á síðustu árum gerir það nú kleift að hægt er að gera gögnin aðgengileg í einum gagnagrunni sem er aðgengilegur öllum. „Á árum áður hefði það fyllt öll tölvuminni að gera þetta. Það er fyrst núna síðustu árin sem er raunhæft að gera þetta af einhverju viti,“ segir Páll. 

Á síðunni má fletta upp í skjálftaritum frá skjálftamælum á …
Á síðunni má fletta upp í skjálftaritum frá skjálftamælum á Íslandi á tímabilinu 1910-2010. Hér má til dæmis sjá Suðurlandsskjálftann 17. júní 2000, sem mældist 6,5 að stærð. Ljósmynd/seismis.hi.is

Fínasta tækifæri til að taka til og henda drasli

Hingað til hafa skjálftaritin verið geymd í ýmsum herbergjum í húsnæði Jarðvísindastofnunar. Ritin verða áfram geymd á pappír en Páll segir að með opnun heimasíðunnar sé verið að koma í veg fyrir að gögnin glatist. „Menn eru að átta sig á því að þessi gögn eru smátt og smátt að glatast. Og svo er stöðugur þrýstingur að taka til í geymslum og henda drasli. En nú er þetta hætt að vera drasl og orðið menningaminjar.“

Pappírsskráningu var hætt árið 2010 og skráning jarðhræringa er nú alfarið stafræn. „En það var 20 ára aðlögunartímabil á meðan verið var að koma þessu í kring. Stafræna skjálftamælanetið var fyrst sett upp árið 1990 á Suðurlandi og svo dreifðist þetta um allt land árin á eftir en það var ekki fyrr en 2010 sem hægt  var að fá gagnasendingar frá hálendinu og þá voru síðustu mælarnir settir niður. Þá var loksins komið fjarskiptanet sem ræður við að flytja þessi gögn, líka af hálendinu,“ segir Páll. 

Vefurinn, seismis.hi.is, ætti að nýtast öllum sem gætu haft gagn af frumheimildum um virkni í jarðskorpu Íslands, t.d. jarðvísindamönnum sem vilja rannsaka jarðskjálfta, eldvirkni og fyrirbrigði tengd þessari virkni. Skjálftamælar veita einnig upplýsingar um innri gerð jarðar og fjarlæga skjálfta. Sagnfræðingar gætu auk þess haft gagn af skjálftaritunum, jafnvel afbrotafræðingar, að sögn Páls. 

Skjálftaritasafnið telur um 300.000 pappírsrit og nú þegar er búið …
Skjálftaritasafnið telur um 300.000 pappírsrit og nú þegar er búið að skanna um 130.000 rit. Ljósmynd/Jarðvísindastofnun HÍ

Gæti jafnvel nýst við rannsókn sakamála

„Það var nú svona meira til gamans gert að telja þá með,“ segir Páll um afbrotafræðingana, en bendir á að skjálftamælar sýni allt sem gerist í nánasta umhverfi og til eru dæmi erlendis frá þar sem skjálftamælar hafa nýst til að leysa sakamál. „Það er til dæmis hægt að staðfesta hvenær bíll fór fram hjá mælinum. Svona mælar eru oft fjarri mannabyggðum svo þeir verði ekki fyrir truflun og einu upplýsingar sem til eru um umferð fjarri byggð eru oft á svona mælum,“ segir Páll. Jarðskjálftamælir hefur þó ekki komið við sögu við rannsókn sakamála hér á landi, enn sem komið er að minnsta kosti. 

Tilgangur heimasíðunnar er tvíþættur að sögn Páls, annars vegar að varðveita gögnin og hins vegar að gera þau aðgengileg til rannsókna á hræringum jarðskorpunnar á Íslandi. 

„Mörg af þessum gögnum hafa ekki verið skoðuð ofan í kjölinn því það er mjög tímafrekt mál að vinna úr þessum gömlu pappírsgögnum. Þegar mikið gekk á þá vannst ekki tími til að vinna úr þeim þannig að við geymdum gögn til seinni tíma,“ segir Páll og nefnir til að mynda mikla skjálftavirkni í Kröflu á 8. og 9. áratugnum. „Það eru endalaus verkefni til að vinna úr þessum eldri gögnum og gera einhver vísindi úr þeim.“

Stúdentar góður starfskraftur

130.000 af 300.000 pappírsritum eru nú aðgengileg á heimasíðunni og er það ekki síst fyrir tilstilli öflugra nemenda við Háskóla Íslands sem skönnun pappírsritanna hefur gengið samkvæmt áætlun, ef ekki betur, en stefnt er á verklok á næsta ári. „Við ráðum stúdenta í lausavinnu, þeir hafa tekið þetta mjög föstum tökum. Stúdentar eru áhugasamir og góður starfskraftur,“ segir Páll. 

Páll segir ferlið hafa verið fræðandi og skemmtilegt og hann hlakkar til að geta grúskað betur í skjálftaritunum þegar öll 300 þúsund pappírsritin verða orðin aðgengileg á síðunni, ekki síst til að öðlast frekari skilning á eldvirkninni fyrr á tímum. 

„Þetta er stöðugt rannsóknarefni og við förum fram og til baka í tímanum til að sannreyna kenningar og finna nýjar staðreyndir. Þetta er stöðugt í deiglunni.“

mbl.is