Apar mynduðu mótefni

Í nýrri rannsókn mynduðu apar mótefni við kórónuveirunni.
Í nýrri rannsókn mynduðu apar mótefni við kórónuveirunni. AFP

Ný rannsókn, sem gerð var í Kína, þykir benda til þess að þeir, sem smitast hafi af kórónuveirunni og náð sér, myndi mótefni og geti ekki smitast aftur. Kínverskir vísindamenn smituðu rhesusapa með nýju kórónuveirunni og komust að því að þeir mynduðu mótefni og voru ónæmir fyrir nýju smiti.

Getgátur hafa verið um að fólk gæti smitast að nýju eftir að kona í Japan greindist jákvæð þegar skimað var eftir veirunni þótt hún teldist hafa náð heilsu.

Sagt er frá tilrauninni á vefsíðu þýska tímaritsins Der Spiegel. Þar kemur fram að eftir eigi að staðfesta gildi rannsóknarinnar með sambærilegum tilraunum annarra vísindamanna. Hins vegar telji sérfræðingar ólíklegt að einstaklingar, sem hafi fengið sjúkdóminn, veikist aftur nokkrum dögum eða vikum síðar.

Samkvæmt vísindamönnunum, sem gerðu rannsóknina í Kína, er mótefnið, sem menn koma sér upp gegn nýju kórónuveirunni, sambærilegt við mótefnið, sem myndast í rhesusöpunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert