Greindist með tvenns konar afbrigði veirunnar

Kári segir það geta verið hreina tilviljun að sami einstaklingur …
Kári segir það geta verið hreina tilviljun að sami einstaklingur greinist með tvö afbrigði kórónuveirunnar, en einnig gæti það þýtt að veiran með stökkbreytingunni sé illvígari en sú án hennar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einn einstaklingur sem fór í skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu vegna kórónuveirunnar greindist með tvenns konar afbrigði veirunnar. Raðgreining líftæknifyrirtækisins á veirunni hefur sýnt fram á um 40 stökkbreytingar af kórónuveirunni. 

Þetta kemur fram í viðtali danska miðilsins Information við Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar. Kári hefur jafnframt útskýrt málið frekar í samtali við fréttastofu RÚV þar sem hann segir að einstaklingurinn hafi greinst með veiruna með og án stökkbreytingar. 

Kári útskýrir einnig að þeir sem einstaklingurinn smitaði síðar greindust allir með veiruna með stökkbreytingunni. Kári segir það geta verið hreina tilviljun, en einnig gæti það þýtt að veiran með stökkbreytingunni sé illvígari en sú án hennar. 

Íslensk erfðagreining hefur alls tekið 5.601 sýni frá því að skimunin hófst um miðjan mánuðinn og hafa 49 sýni reynst jákvæð, samkvæmt tölulegum upplýsingum almannavarna. Færri sýni hafa verið tekin síðustu taka sökum yfirvofandi sýnatökupinnaskorts.

mbl.is