Flestar stökkbreytingar kórónuveirunnar breyta litlu

Smásjármynd af SARS-CoV-2, litlu bláu kúlunum á myndinni.
Smásjármynd af SARS-CoV-2, litlu bláu kúlunum á myndinni. AFP

Flestar stökkbreytingar breyta litlu eða bækla kórónuveiruna. Örsjaldan koma fram stökkbreytingar sem gera veiruna þróttmeiri, það er auka sýkingarhæfni hennar eða hæfni hennar til að koma veirum áfram í sem flesta hýsla.

Slík aukin sýkingarhæfni þýðir ekki endilega verri sjúkdóm, því að áberandi og íþyngjandi sjúkdómseinkenni draga yfirleitt úr útbreiðslu og framgangi veirufaraldra.

Þetta kemur fram í svari um stökkbreytingar kórónuveirunnar á Vísindavefnum. Þar segir að líklegra sé að veiran nái meiri útbreiðslu og að erfiðara verði að hefta hana vegna lítilla eða engra sjúkdómseinkenna, svipað og á við um flestar kvefpestir.

Tíðni stökkbreytinga í SARS-CoV-2-veirunni er lág líkt og í öðru erfðaefni, en áætlað er að við eftirmyndun erfðaefnisins verði mistök í um einu af milljón skiptum, það er stökkbreytingartíðnin í hverju basaseti (e. nucleotide position) er ~10-6 fyrir hverja eftirmyndun.

Líklegt er að veiran eftirmyndist að minnsta kosti tíu umferðir í hýsli áður hún nær að sýkja nýjan hýsil. Heildarlíkurnar á stökkbreytingum frá einum hýsli í næsta eru því rúmlega 10-5 á hvert basaset. Basasetin eru nærri 30.000 í veiruerfðamenginu, það er hver veira hefur náð sér í um eina stökkbreytingu, og flestar veirurnar eru með mismunandi stökkbreytingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert