Nýr íslenskur tölvuleikur gerist í síðari heimstyrjöldinni

Leikurinn er stafrænn safnkortaleikur sem gerist í síðari heimstyrjöldinni.
Leikurinn er stafrænn safnkortaleikur sem gerist í síðari heimstyrjöldinni. Skjáskot úr kynningarmyndbandi 1939 Games

Íslenska tölvuleikjafyrirtækið 1939 Games gaf í síðustu viku út sinn fyrsta tölvuleik. Leikurinn heitir KARDS og sögusvið hans er síðari heimsstyrjöldin. Leikurinn kom út á leikjaveitunni Steam fyrir PC-tölvur 15. apríl en verður einnig gefinn út fyrir síma og spjaldtölvur á haustmánuðum.

KARDS tilheyrir svokölluðum stafrænum safnkortaleikjum (e. Digital Collectable Card Games) en í þeim flokki leikja eru nánast allir leikir fantasíuleikir og er leikurinn Hearthstone frá leikjaframleiðandanum Blizzard þar stærstur.

Áætlað er að allt að 50 milljónir manna spili þessa tegund leikja í hverjum mánuði og að þeir skili yfir 200 milljörðum króna í tekjur árlega.

KARDS hefur verið aðgengilegur í opinni prufuútgáfu síðan í apríl á síðasta ári og fyrir útgáfu leiksins í síðustu viku höfðu rúmlega 170 þúsund notendur spilað leikinn í yfir eina og hálfa milljón klukkustunda samtals.

Aðgengilegur á sex tungumálum

Leikurinn hefur verið í mikilli þróun á þessum tólf mánuðum og hefur hann meðal annars verið þýddur á sex tungumál, frönsku, þýsku, pólsku, rússnesku, kínversku og portúgölsku auk ensku. Verið er að skoða möguleikann á því að þýða hann yfir á íslensku.

„Útgáfu leiksins hefur verið gífurlega vel tekið þessa fyrstu daga og er leikurinn kominn með yfir 250 þúsund spilara samtals en við höfum verið að fá yfir 50 þúsund heimsóknir á dag undanfarna daga. Leikurinn hefur verið að fá mjög góða dóma bæði hjá spilurum og fjölmiðlum en yfir sex þúsund spilarar eru búnir að gefa leiknum einkunn á Steam og stendur heildareinkunn í 88%,“ er haft eftir Ívari Kristjánssyni, framkvæmdastjóra 1939 Games, í tilkynningu.

275 milljón króna fjármögnun lokið

1939 Games lauk nýverið 275 milljóna króna fjármögnun. Crowberry Capital, Hilmar Veigar Pétursson og Sisu Game Ventures, sem er finnskur fjárfestingasjóður leiddu fjárfestinguna.

1939 Games var stofnað af bræðrunum Ívari og Guðmundi Kristjánssonum eftir að Guðmundur hafði fengið frumherjastyrk frá Tækniþróunarsjóði það ár. Bræðurnir hafa báðir mikla reynslu úr tölvuleikjageiranum en þeir störfuðu báðir hjá CCP um árabil.

Ívar var einn þriggja stofnenda CCP og var framkvæmdastjóri fyrirtækisins þegar EVE Online kom út árið 2003 en hann starfaði hjá CCP í 17 ár, lengst af sem fjármálastjóri. Guðmundur starfaði í 12 ár hjá CCP lengst af sem verkefnastjóri. Ellefu manns starfa núna hjá 1939 Games sem eru samtals með áratuga reynslu úr tölvuleikjaheiminum.

„Við erum gríðarlega ánægð með að hafa klárað þessa fjármögnun á tímum COVID-19 faraldursins og gott að sjá þá tiltrú sem núverandi fjárfestar, Crowberry Capital og Sisu Game Ventures, hafa á félaginu ásamt því að fá Hilmar Veigar svona stóran inn sem fjárfesti. Við Hilmar þekkjumst náttúrulega vel frá CCP þar sem við störfuðum mjög náið saman en hann kemur með mikla þekkingu og reynslu inn í félagið. Það eru fáir hér á landi, ef nokkrir, sem þekkja leikjaiðnaðinn betur en Hilmar og þó víðar væri leitað. Sisu Games Ventures og Crowberry Capital hafa verið með okkur síðan 2017 og 2018 og stutt vel við bakið á okkur á þessum tíma“, segir Ívar Kristjánsson.

Starfsmenn 1939 Games. Frá vinstri: Pedro Hrafn Marinez, Raphaelle Monvoisin, …
Starfsmenn 1939 Games. Frá vinstri: Pedro Hrafn Marinez, Raphaelle Monvoisin, Thomas Meise, Ari Páll Albertsson, Guðmundur Kristjánsson, Ívar Kristjánsson, Magnús Þorsteinsson, Smári Gunnarsson, Ingólfur Vignir Ævarsson, Hafdís Helgadóttir, Hrafnkell Óskarsson. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert