Átta bóluefni á lokastigum prófana

AFP

Fleiri en 200 bóluefni við COVID-19 öndunarfærasjúkdómnum eru nú í þróun á heimsvísu. Átta bóluefni eru á lokastigum prófana og hugsanlegt er að bóluefni verði aðgengilegt um mitt næsta ár samkvæmt Soumya Swaminathan, yfirmanni vísindamála hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. 

Í myndskeiði sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin birti á samfélagsmiðlum í dag fer Swaminathan yfir stöðu mála varðandi þróun bóluefna við kórónuveirunni sem veldur COVID-19. 

Swaminathan segir í myndbandinu að ákjósanlegast sé að bóluefnið myndi mótefni fyrir COVID-19 hjá um 70% bólusettra. Þröskuldurinn megi þó aldrei vera lægri en 50%. Þá sé ákjósanlegt að bóluefnið verði gefið í einni sprautu og myndi ónæmi um nokkurra ára skeið. Þá skipti máli að auðvelt sé að geyma það. 

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gerir ráð fyrir því að niðurstöður úr prófunum á bóluefnum fari að birtast í lok þessa árs eða byrjun næsta árs. Þá þurfi að skoða niðurstöðurnar, samþykkja bóluefnið, framleiða það og dreifa því. Það sé því hugsanlegt að hægt verði að hefja almenna bólusetningu um mitt árið 2021. 

mbl.is