Lágkolvetnafæði og föstur geti verið hamlandi

Elísabet Margeirsdóttir, næringarfræðingur og hlaupadrottning, er einn höfundur greinarinnar.
Elísabet Margeirsdóttir, næringarfræðingur og hlaupadrottning, er einn höfundur greinarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Háfitu lágkolvetnafæði og föstur hafa verið áberandi í samfélagslegri umræðu og jafnvel verið kynnt sem heilsu- og frammistöðubætandi fyrir íþróttafólk, en með tilliti til afkastagetu í íþróttum hefur það litla þýðingu og getur verið hamlandi.

Þetta skrifa prófessor, aðjunkt, dósent og tveir lektorar við deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, ásamt Elísabetu Margeirsdóttur, hlaupadrottningu og næringarfræðingi, í bréfi í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.

Sigríður Lára Guðmundsdóttir dósent, Birna Varðardóttir aðjunkt, Gréta Jakobsdóttir lektor, Vaka Rögnvaldsdóttir lektor og Anna Sigríður Ólafsdóttir prófessor, skrifa ásamt Elísabetu að vegna nánast ótakmarkaðra fitubirgða líkamans sé því haldið fram að hægt sé að auka árangur í úthaldsíþróttum með því að auka hlut fitu umtalsvert í mataræðinu á kostnað kolvetna eða jafnvel að sleppa fæðuinntöku í tiltekinn tíma. Fitubrennslugeta líkamans getur aukist töluvert á slíku mataræði, en með tilliti til afkastagetu í íþróttum hafi það litla þýðingu og geti verið hamlandi. Mikilvægt sé að ráðleggingar um þjálfun og næringu séu byggðar á gagnreyndum aðferðum og vönduðum rannsóknum.

Rannsóknir sýni ekki fram á varanlegri áhrif lágkolvetnafæði

Segir í greininni að lágkolvetnafæði geti leitt til samtíma þyngdartaps, en að rannsóknir hafi ekki sýnt með óyggjandi hætti að það hafi meiri eða varanlegri áhrif en aðrar breytingar á mataræði. Þá séu langtímaáhrif föstu lítt þekkt. Víxlföstur geti valdið tapi á bæði fitu- og vöðvamassa, virðist hafa jákvæð áhrif á orkuefnaskipti og blóðsykurstjórnun, en lengri föstur séu taldar skaðlegar heilsu og afkastagetu.

Í hvíld eða við mjög litla, langvarandi ákefð noti líkaminn fyrst og fremst fitu sem orkugjafa, en með aukinni áreynslu noti hann hlutfallslega meira af kolvetnum úr glýkógenbirgðum, sem séu því mikilvæg orkuuppspretta í þjálfun og keppni úthaldsgreina.

Fátt bendi til betri árangurs í úthaldsíþróttum

Fáar rannsóknir bendi til þess að lágkolvetnafæði bæti árangur í úthaldsíþróttum. Það ýti verulega undir aukna fitubrennslugetu en virðist einnig hamla nýtingu kolvetna sem orkugjafa við áreynslu. Þá virðis áhrif föstu á frammistöðu í íþróttum neikvæð með tilliti til háákefðarþjálfunar og viðhalds vöðvamassa. 

Loks geti takmörkun fæðu- eða orkuefna leitt til hlutfallslegs orkuskorts, sem hafi víðtæk áhrif, meðal annars á efnaskiptahraða, hormónastarfsemi og tíðahring kvenna, beinheilsu, ónæmisvarnir, nýmyndun próteina og starfsemi hjarta- og æðakerfis.

Hlutfallslegur orkuskortur hafi þannig neikvæð áhrif á heilsu og íþróttaárangur til lengri og skemmri tíma, ekki einungis meðal afreksíþróttafólks því vandamálið getur komið fram óháð aldri og getustigi. Hann geti einnig aukið meiðslahættu og tafið bata og þannig hamlað frekari ástundun.

„Séu höfð í huga þau alvarlegu heilsufarsvandamál sem beinþynning og vöðvarýrnun hafa í för með sér er hæpið að mæla með lágkolvetnafæði eða föstu samhliða ákafri þjálfun, sér í lagi með hækkandi aldri. Föstur og/eða útilokun einstakra fæðu- eða orkuefna eru á skjön við næringarráðleggingar til fullorðinna. Óeðlilegt samband við mat kemur niður á upplifun og vellíðan tengt því að nærast og getur jafnvel leitt af sér átröskunarhegðun. Mikilvægt er að hafa í huga hver tilgangur þjálfunar og næringar er og hvort markmiðin tengist frammistöðu, heilsu, holdafari eða vellíðan. Við sjáum ástæðu til að benda á mikilvægi þess að íþróttafólk leiti ráðgjafar um þjálfun og næringu hjá til þess bærum aðilum með viðeigandi menntun og réttindi, svo sem menntuðum íþrótta- og næringarfræðingum.“

Sérstaklega sé þó vert að taka fram að rannsóknir á föstum meðal íþróttafólks hafi nánast allar farið fram á ungu hraustu fólki þar sem beinþéttni og vöðvamassi eru í hámarki. Þá hafi flestar rannsóknir á áhrifum þess að fasta eða fylgja lágkolvetnamataræði á hlutfall fitu-, vöðva, og beinmassa farið fram á fólki í ofþyngd. Líklegt sé að áhrifin á aðra aldurshópa og fólk í kjörþyngd sem stundar mikla hreyfingu eða íþróttaæfingar séu önnur.

mbl.is