Hægt að fletta sjálfum sér upp í facebookgagnaleka

Upplýsingum um 533 milljónir Facebook-notenda, einn af hverjum fimm, var …
Upplýsingum um 533 milljónir Facebook-notenda, einn af hverjum fimm, var nýverið lekið á netið. Gögnin eru talin nokkurra ára gömul. AFP

Greint var frá því á laugardag að persónuupplýsingum 533 milljóna facebooknotenda hefði verið lekið og gögnin væru nú aðgengileg öllum á netinu. Gögnin eru talin nokkurra ára gömul, en gagnabankinn var boðinn aðgengilegur gegn gjaldi í upphafi árs, áður en þrjótar gerðu hann aðgengilegan öllum á laugardag, sem fyrr segir.

Á vefsíðunni Have I Been Pwned geta notendur slegið inn netföng sín eða símanúmer til að sjá hvort þeim hafi verið lekið. Vefsíðan er rekin af ástralska netöryggissérfræðingnum Troy Hunt og byggir hún niðurstöðurnar á þekktum gagnalekum, til að mynda þeim stóra hjá Facebook. Á vefsíðunni er ekki hægt að sjá gögnin, aðeins athuga hvort tiltekið símanúmer eða netfang sé þar að finna.

Með krókaleiðum getur hver sem er þó sótt öll gögnin og það hafa ýmsir gert. Meðal þess sem hefur komið í ljós er að sjálfur forstjóri Facebook, Mark Zuckerberg, var meðal fórnarlamba, en símanúmer hans – sennilega fyrrverandi símanúmer nú – er í gögnunum. 

Netverjar hafa veitt því athygli að umrætt símanúmer er virkt á spjallforritinu Signal, en það forrit leggur mikið upp úr persónuvernd notenda og beitir til þess dulkóðun frá enda til enda (e. end-to-end encryption). Er því ljóst að Zuckerberg treystir ekki eigin miðli fyrir öllum sínum skilaboðum.

Til skoðunar á Írlandi

Persónuverndaryfirvöld á Írlandi eru með til skoðunar hjá sér gríðarstóran gagnaleka á persónuupplýsingum af Facebook.

Höfuðstöðvar Facebook í Evrópu eru á Írlandi og af þeim sökum hefur persónuvernd þar í landi það risavaxna hlutverk að fylgjast með starfsemi fyrirtækisins innan ESB. Talsmaður persónuverndarinnar segir í samtali við AFP að gagnalekinn hafi komið upp áður en ný persónuverndarlöggjöf ESB tók gildi í maí 2018. Facebook hafi ekki tilkynnt atvikið til persónuverndar, eins og því bæri ef hann kæmi upp í dag.

Þó er ekki útilokað að nýjustu gögn úr lekanum séu nýrri, samkvæmt upplýsingum frá írsku persónuverndinni. Facebook hefur sjálft sagt að „yfirgripsmikla rannsókn“ þurfi til að fá yfirsýn yfir umfang lekans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert