„Skamm­deg­isþung­lyndi? Nei, við tök­um svo mikið lýsi“

Skoðuð verður fylgni milli matarhegðunar, árstíðarbundinna skapsveiflna (skammdegisþunglyndi) og einstaklingsbundinna …
Skoðuð verður fylgni milli matarhegðunar, árstíðarbundinna skapsveiflna (skammdegisþunglyndi) og einstaklingsbundinna dægursveiflna, yfir eins árs tímabil.

Rannsóknarteymi við sálfræðideild Háskólans á Akureyri vinnur nú að því að rannsaka skammdegisþunglyndi á Íslandi. Skoðuð verður fylgni milli matarvenja, árstíðarbundinna skapsveiflna (skammdegisþunglyndi) og einstaklingsbundinna  dægursveiflna, yfir eins árs tímabil.

Teymið samanstendur af þeim Yvonne Höller, sem er prófessor í sálfræði við HA, og Annick Ulrich, en hún er meistaranemi við sálfræðideild skólans.

Á Íslandi hefur skammdegisþunglyndi mælst lágt miðað við önnur lönd þar sem veturinn er álíka langur. Samkvæmt fyrri rannsóknum mældist það 3,8% en 20 ár eru síðan þær voru framkvæmdar og því kominn tími til að skoða þetta á nýjan leik.

„Taktu lýsi“ og „þetta reddast“

Yvonne er sérfræðingur í heilabylgjum og var byrjuð á rannsóknarverkefni tengdu flogaveiki sem hún þurfti að hætta við þegar hún flutti til Íslands.

Áður en hún flutti hingað var hún hvött til að passa sig á skammdegisþunglyndinu þar sem veturnir væru svo langir og dimmir á Íslandi. Yvonne sagði í viðtali við mbl.is að hún sem vísindamaður hafi ákveðið að skoða þetta fyrirbæri betur og komst þá að því að á Íslandi er töluvert lægri tíðni skammdegisþunglyndis en í öðrum löndum á við Finnland og Noreg þar sem veturinn er álíka langur. 

Niðurstöðurnar eru að vísu komnar til ára sinna en Yvonne þótti þetta áhugavert og var þar með búin að finna nýtt viðfangsefni fyrir rannsóknina sína. 

Til eru kenningar um að skýringin sé genetísk. Íslendingar hafi þróast í átt að því að verða ónæmir fyrir skammdeginu en þær eru ekki vel rökstuddar að mati Yvonne. 

Hún veltir því þó fyrir sér hvort þetta sé menningarlegs eðlis. Íslendingar séu með aðdáunarvert viðhorf sem endurspeglist í orðunum „þetta reddast“, og skili sér í afslappaðri einstaklingum, börnum sem og fullorðnum. Einnig bendir hún á að kannski kvarti Íslendingar bara minna en aðrar þjóðir. 

„Skammdegisþunglyndi? Nei, við tökum svo mikið lýsi,“ voru viðbrögðin sem Yvonne fékk þegar hún kynnti hugmyndina fyrir íslenskum samstarfsfélögum. Þótt það hafi verið sagt í gamni rambaði Yvonne einmitt á rannsókn sem sýndi fram á fylgni milli inntöku D-vítamíns og bættrar geðheilsu. Er þetta því þáttur sem hún hyggst skoða líka í rannsókn sinni sem einblínir á árstíðabundnar matarvenjur fólks. 

Matarvenjur

Rannsóknarteymið hefur áhuga á að skoða þrjár breytur. Fyrst ber að nefna næringu en löngun í kolvetni og sætindi hefur verið tengd við skammdegisþunglyndi. 

Samkvæmt þeim forsendum sem rannsóknarteymið byggir á þá er einnig margt sem bendir til þess að tengsl séu milli matarvenja fólks og skammdegisþunglyndis.

Spurningin er þó hvort matarvenjurnar séu orsök eða afleiðing. Rannsóknir eru hver í þversögn við aðra hvað þetta varðar. Sumar benda til þess að fólk sem upplifir þunglyndiseinkenni sé líklegra til að sækja í sykur og kolvetni en aðrar benda til þess að þeir sem neyta sykurs og kolvetna séu berskjaldaðri fyrir þunglyndiseinkennum.

Sælgætis- og kolvetnisþrá fólks er oft meiri í skammdeginu en …
Sælgætis- og kolvetnisþrá fólks er oft meiri í skammdeginu en neysla slíks fæðis getur einnig ýtt undir skammdegisþunglyndi. mbl.is/Sigurgeir

Morgunhani eða nátthrafn

Önnur breyta sem skoðuð verður er hvort fólk sé virkara á kvöldin eða á morgnana, en oft er talað um A- eða B-manneskjur í þessu sambandi. Telur rannsóknarteymið margt benda til þess að þeir sem eru virkari á kvöldin en á morgnana séu líklegri til að upplifa skammdegisþunglyndi.

Yvonne segir að ekki sé valkvætt hvorn hópinn þú skipar. Líkamsklukka fólks sé misjöfn af líffræðilegum ástæðum og henni verði ekki breytt með því einfaldlega að venja sig á ákveðinn lífsstíl.

Venjan er þó sú að líkamsklukkan hjá yngra fólki sé seinni og henni flýti svo með aldrinum. Yvonne segir að ítrekaðar rannsóknir hafi sýnt fram á tengsl líkamsklukku við kvíða og þunglyndi og því býst hún við því að sjá þær niðurstöður endurspeglast í rannsókninni. 

Góð ráð að ári

Í rannsókninni verður skoðuð fylgnin milli dægurgerðar, matarvenja og árstíðarbundinna geðsveiflna. Leitað er eftir Íslendingum, 18 ára og eldri, sem tilbúnir eru að taka þátt í þessu verkefni með því að svara spurningalista fjórum sinnum yfir árið, þá einu sinni fyrir hverja árstíð.

Ef allt gengur eftir verður hægt að kynna niðurstöður að loknu ári og þá mun Yvonne vonandi geta lagt til nokkur góð ráð til að forðast skammdegisþunglyndi. 

Dregnir verða út þátttakendur sem hljóta vinning en hægt verður að vinna gjafabréf í Jarðböðin við Mývatn og gjafabréf á Glerártorgi.

mbl.is