Kveikjum neistann!

Verkefninu Kveikjum neistann! var hleypt af stað í vikunni til …
Verkefninu Kveikjum neistann! var hleypt af stað í vikunni til að efla skólastarf og bæta námsáranfur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verkefninu Kveikjum neistann var hleypt af stokkunum í Vestmannaeyjum á þriðjudag og er því ætlað að efla skólastarf og bæta námsárangur. Hermundur Sigmundsson og Svava Þ. Hjaltalín fjalla hér um verkefnið og viðfangsefni íslensks menntakerfis.

þessi pistill fer í gegnum nokkrar áskoranir í sambandi við íslenskt menntakerfi með aðaláherslu á grunnskólann.

Fjallað er um nokkrar mikilvægar kenningar sem tengjast þessum áskorunum sem á sama tíma geta tengst möguleikum á hvaða aðgerðir ætti að grípa til. Þær aðgerðir, eða verkefni, köllum við Kveikjum neistann! Verkefnið hefst í Vestmannaeyjum 17. ágúst nk. Verkefnið sem er 10 ára þróunar- og rannsóknarverkefni með heildstæða nálgun á skólastarfið, er stutt af Vestmannaeyjabæ, menntamálaráðuneyti, Háskóla Íslands og Samtökum atvinnulífsins. Háskóli Íslands og SA hafa stofnað Rannsóknarsetrið Menntun og hugarfar með aðsetur við menntvísindasvið. Setrið ber ábyrgð á verkefninu.

ÁSKORANIR

40% af 3 ára börnum eru í áhættuhópi hvað málþroska og orðaforða varðar samkvæmt tölum frá leikskólum í Hafnarfirði á tímabilinu 2015-2020. Til samanburðar voru árið 1998 16% í áhættuhópi.

39% af börnum eru ekki full læs, eða geta ekki lesið sér til gagns eftir 2. bekk í Reykjavík árið 2019. Árið 2002 var þessi tala 33% og hefur því hækkað um 6%.

Hermundur Sigmundsson er prófessor við Norska tækni- og vísindaháskólann í …
Hermundur Sigmundsson er prófessor við Norska tækni- og vísindaháskólann í Þrándheimi og við Menntun og hugarfar rannsóknarsetur við Háskóla Íslands. Kristinn Magnússon

Ef lestrarfærni er skoðuð má sjá að 34% drengja og 19% stúlkna 15 ára geta ekki lesið sér til gagns, því þau skilja ekki þann texta sem þau lesa. Bæði kynin hafa farið 34 stig niður frá árinu 2000. Það hefur verið stöðugur 40 stiga munur á kynjunum á tímabilinu 2000 til 2018. PISA-könnunin hófst árið 2000. Árið 2018 voru 26% sem ekki náðu hæfniþrepi 2 sem er grunnhæfni, en voru 15% árið 2000. Sú staðreynd að bæði 15 ára unglingar eiga í erfiðleikum með lesskilning og að þriggja ára börn eigi í erfiðleikum með almennan málþroska boðar ekki bjartari tíma, því miður.

Bæði drengjum og stúlkum hefur farið mikið aftur í stærðfræði frá árinu 2003, eða úr 515 stigum í 495 stig. Árið 2018 voru 21% sem ekki náðu viðmiði 2 en voru 13% árið 2003.

Í náttúrufræði er sama staða og í stærðfræði og hefur hæfni farið mikið niður á við frá árinu 2006, eða úr 491 í 475 stig. 2018 voru 16% sem ekki náðu hæfniþrepi 2 en voru 25% árið 2018.

Ísland skoraði lægst af OECD-löndum í félagsfærni árið 2020.

Kannanir sýna að fleiri unglingar glíma við kvíða, þunglyndi og stress og geta þar samfélagsmiðlar spilað stórt hlutverk. Ungmenni eru stöðugt að bera sig saman við aðra hvað varðar útlit og klæðnað og aðra þætti sem getur valdið því að áskoranir verða of stórar.

Lyfjanotkun hefur aukist, en bæði notkun á ADHD-lyfjum og kvíðastillandi lyfjum hefur aukist gífurlega síðasta áratug. Árið 2010 tóku 8,3% drengja og 2,8% stúlkna ADHD-lyf og árið 2019 tóku 15% drengja og 7% stúlkna ADHD-lyf. Árið 2017 tóku 21% íslenskra drengja 10-14 ára tauga- og geðlyf, til samanburðar tóku 9% sænskra drengja á sama aldri slík lyf. 14% íslenskra stúlkna á sama aldri tóku tauga- og geðlyf en 7% sænskra stúlkna.

Mikið brottfall er úr framhaldsskólum, þá mest hjá drengjum (32%) en einnig stúlkum (22%) en þó allra mest hjá innflytjendum (62%).

30/70% kynjahlutfall er við Háskóla Íslands sem er stærsta kynjahlutfall sem er mælt í OECD-ríkjum.

Við mælum leshraða þrátt fyrir að leshraði sé ekki í lestrarfærnisjöfnunni (lestrarfærni=umskráning x málskilningur) og fremstu fræðimenn heims á sviði lestrarkennslu byrjenda, Heikki Lyytinen og Kate Nation styðja það ekki. Einnig eru viðmiðin þannig gerð að börn og unglingar eiga erfitt með að ná þeim. Að vera stöðugt minntur á að þú sért ekki nógu góður veldur mjög líklega kvíða og leiða á því sviði sem það tengist.

Við erum með samræmt stærðfræðipróf í 4. bekk fullt af lesskilningsverkefnum, þegar margir eru illa læsir með slakan málskilning. Einnig byrjum við of snemma á að nota orðadæmi í stærðfræði, eða strax í 1. bekk, þegar má reikna með að yfir 50% barna séu ekki læs.

Svava Þ. Hjaltalín er grunnskólakennari og verkefnastjóri við Menntun og …
Svava Þ. Hjaltalín er grunnskólakennari og verkefnastjóri við Menntun og hugarfar rannsóknarsetur við Háskóla Íslands.

VÍSINDI

Gilbert Gottlieb sýndi með sinni virtu kenningu að það er alltaf samspil milli gena, taugakerfis, atferlis og umhverfis í þróun hvers einstaklings. Það eina sem við sem foreldrar, kennarar og þjálfarar getum gert er að skapa örvandi og ögrandi umhverfi fyrir börn og unglinga og hjálpa þeim að finna sín áhugasvið og styðja námsferlið.

Edelman segir að með þjálfun byggjum við upp tauganet það sem oft kallast „deep learning“ eða djúp þekking (e. plasticity). Sú færni og þekking sem við sköpum hefur sýnt sig að vera gífurlega sérhæfð eins og við segjum: „Það sem er þjálfað þróast,“ (What is trained develops).

Fókus opnar dyrnar að öllu námi. Það þarf fókus til að afla upplýsinga og það þarf fókus til að koma frá sér upplýsingum.

Ericsson er mjög þekktur fyrir sína kenningu sem kallast markviss þjálfun (deliberate practice). Þar er unnið með klár afmörkuð markmið sem eru mælanleg. Þar er gífurlega mikilvægt að hafa réttar áskoranir og eftirfylgni, þar sem staða einstaklingsins er skoðuð og ný markmið sett. Mentor, þjálfari eða kennari er í lykilhlutverki með að setja markmið og viðhafa eftirfylgni. Mikilvægasta við kenningu Ericsson er að allir geti bætt sína færni og þekkingu með markvissri þjálfun.

Csikszentmihalyi kom með sína kenningu 1975 sem kallast flæði eða „flow“. Lykill kenningarinnar er sá að til að komast í flæði þá þarf að vera rétt samband milli áskorana og færni. Þegar maður kemst í flæði þá á nám sér stað og maður öðlast „mastery“. Jákvæð styrking er einnig mjög mikilvæg í kenningu Csikszentmihalyi. Hann sem fræðimaður er með yfir 120.000 tilvitnanir, það er að segja vísindagreinar sem vitna í hann, sem sýnir mikilvægi kenningarinnar.

Rannsóknir okkar, minnar (Sigmundsson) og fræðimannanna Dweck og Duckworth hafa sýnt að lykilþættir í hugarfari til þess að ná árangri tengjast ástríðu, þrautseigju og gróskuhugarfari. Menn skora hærra í ástríðu, það er að segja sterkum áhuga fyrir sviði eða þema, en konur skora hærra í þrautseigju sem tengist sterkt sjálfsaga og samviskusemi. Menn hafa hátt samband milli ástríðu og þrautseigju en konur hátt samband milli þrautseigju og gróskuhugarfars. Þetta samspil breytist með auknum aldri samkvæmt okkar rannsóknum.

MÖGULEIKAR

Efla fókus með:

Styttri tíma í kennslustundum, eða hámark 40 mínútur og svo 10 mínútna frímínútur.

Hreyfistund alla daga vikunnar. Tveir íþróttatímar, einn sundtími og tveir tímar með alhliða hreyfingu (72 extra 40 mín. tímar í hreyfingu á hverju skólaári). Hreyfing er jákvæð fyrir hreyfifærni, hreysti, vellíðan, félagsfærni og einbeitingu.

Það að hafa ástríðutíma í lok skóladagsins gefur börnum möguleika á að fá að velja viðfangsefni sem þau hafa áhuga á sem hefur jákvæð áhrif á líðan gegnum aukið flæði, aukna ástríðu og aukna þrautseigju. Dæmi um slík áhugasvið gætu verið skapandi greinar eins og tónlist, myndlist, leiklist, dans og skák.

Efla nám með:

Áskorun miðað við færni er lykill númer eitt. Börn fá alltaf áskoranir sem passa við þeirra færni. Lykill til að komast í flæði og til að öðlast „mastery“. Það þýðir til dæmis að leshraðamælingar eru ekki notaðar en þær geta komið börnum úr flæði, og orðadæmi í stærðfræði eru ekki notuð fyrr en börn hafa öðlast góðan mál- og lesskilning.

Forgangsraða ætti kennslustundum, eins og að hafa fyrir hádegi lestur og íslensku (markmið 80-90% fullæs eftir 2 bekk), stærðfræði, náttúrufræði þar sem mikil áhersla verður á markvissa þjálfun í anda fræðimannsins Ericsson. Skapandi greinar eiga að vera eftir hádegi þar sem börnum gefst meira val og sérhæfing.

Þjálfunartíminn á að vera strax eftir hádegi, en í þjálfunartímanum fá allir fá áskoranir miðað við færni – fyrstu tvö árin er höfuðáhersla á lestur en læsi er lykilinn að öllum öðrum lyklum náms og menntunar.

Þörf er á betri eftirfylgni, það er að segja við verðum að vita hvar hvert barn stendur miðað við það sem er markmið námskeiðsins: Ferlið er þannig: stöðumat – markmið – þjálfun – stöðumat – ný markmið – þjálfun.

Gefa þarf jákvæða styrkingu við ferlið, sem sagt styðja barnið/unglinginn þegar það/hann vinnur vel og er með fókus á verkefni.

Þróa þarf stöðumatspróf í lestri, það er að segja leskilningspróf frá 1. til 10. bekkjar.

Þróa þarf stöðumatspróf í stærðfræði og náttúrufræði frá 1. til 10. bekkjar. Frá og með öðrum bekk 30 atriði (20 frá öðrum bekk, 5 frá 1. bekk og 5 frá 3. bekk).

Efla áhuga með að:

Vinna verkefni sem tengjast áhugasviði. Lesa texta og bækur sem vekja áhuga barna og unglinga.

Skrifa texta um viðfangsefni sem fangar áhugann.

Vinna verkefni í öðrum fögum þar sem áhugasvið stjórnar vali.

Lykilatriði er að kveikja neistann!

Hermundur er prófessor við Norska tækni- og vísindaháskólann í Þrándheimi og við Menntun og hugarfar rannsóknarsetur við Háskóla Íslands.

Svava Þ. Hjaltalín er grunnskólakennari og verkefnastjóri við Menntun og hugarfar rannsóknarsetur við Háskóla Íslands.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert