Facebook og Ray-Ban kynna snjallsólgleraugu

Svalur og snjall? Það er a.m.k. stefnan hjá Facebook og …
Svalur og snjall? Það er a.m.k. stefnan hjá Facebook og Ray-Ban sem hafa tekið höndum saman með verkefni sem kallast Ray-Ban Stories, sem eru snjallsólglerlaugum sem geta tekið myndir og myndskeið, sem og að leika tónlist og taka á móti símtölum. AFP

Facebook hefur tekið höndum saman með lúxusfyrirtækinu Ray-Ban og kynnti í gær „snjallsólgleraugu“ sem geta tekið myndir, myndskeið, spilað tónlist og tekið á móti símtölum. 

Samstarfsverkefnið kallast Ray-Ban Stories, og eru gleraugun með tvær myndavélar, hljóðnema og litla hátalara.

Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, sagði í myndskeiði á Facebook, að nú þurfi notendur ekki alltaf að hafa símann við höndina til að taka upp myndskeið eða ljósmyndir, og þá sýni myndefnið nákvæmlega það sem myndasmiðurinn er að horfa á. 

AFP

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem tæknifyrirtæki gera tilraunir með snjallgleraugu. Margir minnast þess þegar samfélagsmiðilinn Snapchat kynnti Spectacles-verkefnið fyrir þremur árum og þá gerði Google tilraun með Google Glass, en hvorug tæknin náði flugi. 

Facebook vonar að með því að fara í samstarf með þekktu merki á borð við Ray-Ban, þá verði annað uppi á teningnum og að þetta verði gleraugu sem fólk vilji og muni nota. Gleraugun eiga að geta geymt um 30 myndskeið og um 500 ljósmyndir sem er svo hægt að hlaða inn á tölvu, eða setja inn á Facebook og Instagram, sem er einnig í eigu Facebook.

Svo er að bíða og sjá hvort neytendur taki tækninni opnum örmum sem nútímalegum snjallspegli sálarinnar eða hvort gleraugun hafni í glatkistu tækninnar. 

Hér fyrir neðan má sjá tækniumfjöllun BBC um Ray-Ban Stories.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert