Artemis skotið á loft til tunglsins í dag

Kröftugustu eldflaug Geimferðastofnunar Bandaríkjanna, NASA, til þessa verður skotið á loft klukkan 12.33 í dag frá Kennedy-höfða í Flórída. Geimskotið er liður í áætlun um að flytja fólk á nýjan leik til tunglsins og seinna meir til plánetunnar Mars.

Tugir þúsunda manna munu fylgjast með geimskotinu, sem hefur verið áratugi í undirbúningi, meðfram ströndum Flórída. Á meðal þeirra verður Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna.

Artemis-flaugin tilbúin til flugtaks.
Artemis-flaugin tilbúin til flugtaks. AFP

Hótel í kringum Canaveral-höfða eru uppbókuð og er búist við á bilinu 100.000 til 200.000 áhorfendum.

Markmiðið með fluginu, sem kallast Artemis 1, er að prófa hylkið sem situr á toppi eldflaugarinnar. Það mun fara á sporbaug um tunglið og um leið kemur í ljós hvort það er nógu öruggt til að flytja manneskjur í náinni framtíð. Á einhverjum tímapunkti mun Artemis sjá til þess að bæði kona og þeldökk manneskja gangi á tunglinu í fyrsta sinn.

Orion-hylkið sem er á eldflauginni .
Orion-hylkið sem er á eldflauginni . AFP/Chandan Khanna

„Þessi leiðangur hefur í för með sér vonir og drauma mjög margra. Við erum núna Artemis-kynslóðin,“ sagði Bill Nelson, yfirmaður hjá NASA.

Myndavélar munu fanga hvert augnablik ferðalagsins, sem stendur yfir í 42 daga, þar á meðal sjálfu af geimfarinu með tunglið og jörðina í baksýn.

mbl.is