Dönsku gervitungli ætlað að auka öryggi skipa

Siuana Arctica er eitt skipa RAL en þau munu nú …
Siuana Arctica er eitt skipa RAL en þau munu nú reyna nýja gervitunglið í samstarfi við dönsku veðurstofuna. Ljósmynd/Wikipedia.org/Tupaarnaqt

Nýju gervitungli, sem nú sætir prófunum dönsku veðurstofunnar Danmarks Meteorologiske Institut (DMI) og grænlensku útgerðarinnar Royal Arctic Line (RAL), er ætlað að auka öryggi siglinga með ströndum Grænlands og við norðurheimskautið almennt með því að koma veðurupplýsingum til áhafna á mun skilvirkari hátt en nú tíðkast á þessum slóðum.

Að sögn Jacobs L. Høyer, deildarstjóra gervitungladeilar norðurheimskauts hjá DMI, er gjarnan óhægt um vik hjá skipum á þessum slóðum að nálgast upplýsingar um veður í rauntíma þar sem flestir gervihnettir séu á sporbaugi fyrir ofan miðbaug jarðar og nágrenni hans.

Fer á braut yfir heimskautinu

„Margir renna þannig blint í sjóinn eftir að hafa viðað að sér upplýsingum áður en látið er í haf, sem svo eru orðnar úreltar eftir nokkurra daga siglingu,“ útskýrir deildarstjórinn og bætir því við að nú sé lausnin í sjónmáli.

Hún felist í dönsku gervitungli sem skotið var á loft með Space X-burðarflauginni Transporter 6 frá Canaveral-höfða í Flórída á þriðjudaginn í síðustu viku. Komu nokkur dönsk fyrirtæki að hönnun og smíði tunglsins, þar fremst í flokki Sternula í Álaborg, í samstarfi við Háskólann í Álaborg og DMI.

Mun gervitunglið fara á braut um jörðu sem liggur yfir norðurheimskautið og því vera í stakk búið til að miðla upplýsingum til sjófara á þeim slóðum. „Ástæðan fyrir því að við tókum þátt í þessu samstarfi er að með því eygjum við möguleika á að koma upplýsingum frá okkur til skipanna á meðan þau eru á siglingu um heimskautssvæðið og við Grænland,“ segir Høyer enn fremur.

Ísrek og aðvaranir almennt

Þessi möguleiki veðurstofunnar muni auka öryggi skipanna til muna þar sem hægt verði að koma til þeirra nýjustu upplýsingum um veður auk upplýsinga um ísrek og annarra aðvarana sem í gildi eru hverju sinni.

Samband er nú komið á við gervitunglið nýja og hefjast þá prófanir DMI og RAL sem reiknað er með að taki um hálft ár.

Sermitsiaq

Shippingwatch (skráningar krafist til lestrar)

Spaceflightnow.com (neðarlega er fjallað um danska tunglið)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert