Hefur áhyggjur af svindlurum í kjölfar áskriftarleiða Meta

Guðmundur Jóhannsson, upplýsingafulltrúi Símans.
Guðmundur Jóhannsson, upplýsingafulltrúi Símans. Samsett mynd

Guðmundur Jóhannsson, samskiptastjóri Símans, segir kynningu Mark Zuckerberg á persónuöryggisáskrift Meta hafa verið óvænta. Zuckerberg hafi að einhverju leyti misst sjónar á samfélagsmiðlunum í þágu sýndarveruleikans Metaverse.

Mark Zuckerberg, stofnandi samfélagsmiðilsins Facebook og forstjóri Meta, móðurfyrirtækis Facebook, Instagram og Whatsapp tilkynnti í gær að ný áskriftarleið væri væntanleg. Áskriftarleiðin snýr að því að notendur geti borgað ákveðna upphæð á mánuði, framvísað skilríkjum og fengið blátt hak við hliðina á nafninu sínu sem staðfestir að um réttan aðila sé að ræða. Á þetta að verja fólk gegn því að óprúttnir aðilar afriti upplýsingar þeirra og þykist vera þau á miðlinum. Þá munu áskrifendur fá aukið aðgengi að þjónustufulltrúum fyrirtækisins.

Áskriftin mun kosta frá 11,99 Bandaríkjadölum eða 1.771 krónu fyrir þjónustu á vefnum og 14,99 Bandaríkjadölum eða 2.215 krónur fyrir þjónustu í gegnum önnur tæki á vegum Apple eins og síma. Áskriftin verður ekki í boði alls staðar fyrst um sinn og verður á næstu dögum boðið upp á hana á Nýja-Sjálandi og í Ástralíu.

Mannfólkið veikasti hlekkurinn

„Eins og ég sé þetta þá er það tvennt, það er fáránlegt að þú þurfir að borga fyrir grunnöryggi og sérstaklega á þjónustu eins og Facebook þar sem það ætti að vera keppikefli fyrirtækisins að tryggja öryggi allra notenda og viðskiptavina sinna. Svo er það náttúrulega hin hliðin að þessi ákvörðun er auðvitað viðskiptalegs eðlis því Meta er í vandræðum og þurfa að skapa auknar tekjur. Þetta er ein þeirra leiða sem þau hafa valið að fara í að reyna að auka tekjurnar sínar,“ segir Guðmundur.

Honum finnist þó sérstakt að fyrirtækið hafi ákveðið að fara þá leið að leita fyrst til einstaklinga fremur en fyrirtækja og frægra einstaklinga. Það séu þeir hópar sem hljóti að þurfa mest á þessari þjónustu að halda. Venjulegt fólk lendi vissulega í því að einhver þykist vera það á netinu en þar sé mannfólkið veikasti hlekkurinn, ekki Facebook.

„Auðvitað gerist það og það kemur svolítið í hrinum en það tengist náttúrulega ekki endilega grunnöryggi þjónustunnar heldur að við mannfólkið erum veikasti hlekkurinn. Við föllum í einhverja gildru. Við gerum eitthvað sem við eigum ekki að gera og almenn skynsemi ætti að segja okkur að gera alls ekki en við gerum það í blindni og þannig missum tökin á reikningnum okkar,“ segir Guðmundur.

Það sé þó ekki endilega allt neikvætt við þessa nýju áskriftarleið. Hún henti eflaust best þeim notendum sem noti Facebook sem sitt helsta markaðstæki eins og listafólk eða einyrkjar. Áskriftarleiðin lofi því að fólk hafi beinna samband við þjónustu sem sé annað en áður og jákvæð breyting fyrir þessa notendur.

„Það hefur í gegnum tíðina verið næstum því ómögulegt að hafa samband við Facebook, það er bara ekki hægt. Þú ert alltaf að fylla út eitthvað eyðublað á netinu sem fer í eitthvað svarthol sem enginn veit hvað verður um og fæst okkar fá einhvern tímann svar,“ segir Guðmundur.

Það eigi þó eftir að koma í ljós hversu góð aðstoðin er í raun og veru.

Notendur verði að geta treyst Facebook

Aðspurður hvort hann telji að með þessu myndist einhverskonar stéttaskipting öryggis, að þeir sem að eigi peninginn fái betri vernd en aðrir segir hann Facebook falla um leið og notendur beri ekki traust til miðilsins.

„Facebook er ekkert án þess að notendurnir treysti miðlinum. Það versta sem mögulega gæti komið fyrir Facebook væri alvöru öryggisbrestur eða gagnaleki sem er frá þeim kominn eða er þeim að kenna. Síðustu árin hefur þetta verið þannig að Facebook sem þjónusta eða tæknilegt umhverfi er ekki að klikka heldur stakir notendur, við mannfólkið. Það erum við sem erum að falla í þessa gildru, það erum við sem erum að klúðra einhverju og ýta á einhverja linka eða gefa upp lykilorð, þá kannski er það ekki svo mikil hætta. Það er þá bara á meðan Facebook sjálft hefur ekki klúðrað einhverju. Ábyrgðin er alltaf á okkur sem notendur að passa upp á okkar notendanafn og lykilorð, það er engra annarra og það á ekki bara við Facbook, það á við um allt í stafrænu umhverfi,“ segir Guðmundur.

Þegar því er velt upp hvort Facebook sé farið frá markmiðum samfélagsmiðla, að tengja fólk, búa til vettvang til samskipta og veita fólki jafnan aðgang segir Guðmundur þá tilfærslu hafa verið að þróast á síðustu árum.

Hann segir notendur vera að færast frá því að skrifa texta á vegginn sinn og búast við dreifingu og færast meira yfir í samskipti innan hópa.

„Svo þarf svolítið að koma í ljós með þessar áskriftarleiðir í raun og veru því þau segja að áskrifendur muni fá meira vægi í algríminu, hvernig það mun virka. Það mun taka Facebook einhvern tíma að fínstilla það og finna þessa fínu línu að hver sem er geti ekki bara, af því hann er áskrifandi, farið víðar. Hvernig mun það stemma af við auglýsendur sem eru líka að reyna að fá athygli á miðlinum og eru að kaupa auglýsingar fyrir háar fjárhæðir,“ segir Guðmundur en fróðlegt verði að sjá Meta finna jafnvægið.

Fellur eins og spilaborg án notenda

Hann segir Zuckerberg hafa misst sjónar á samfélagsmiðlunum og einbeitt sér of mikið á sýndarveruleikanum Metaverse. Miklu máli skipti að hugsa vel um notendur þeirra, ef enginn er á miðlunum er enginn til þess að horfa á auglýsingar innan þeirra og þá fellur viðskiptamódel þeirra.

Tilraun eldri samfélagsmiðla eins og Facebook til þess að halda í notendur má sjá auknu mikilvægi stuttra myndbanda sem áður mátti bara sjá á samfélagsmiðlinum Tiktok sem hefur notið gríðarlegra vinsælda.

Hann segir næstu misseri hjá Meta verða áhugaverð og líkt og fólk fylgdist betur með Twitter eftir breytingar nýja eigandans, Elon Musk muni það fylgjast með Meta núna.

„Núna mun maður fylgjast enn betur með hvað er í gangi þarna og hvernig þau ætla að bregðast við umtalinu, hvernig viðbrögð þessi áskriftarþjónusta fær. Ég held að aðalmálið verði hvernig hún verður úr garði gerð þessi þjónusta, hvernig hún mun raunverulega virka. Mér finnst þá sérstaklega þetta með að færslur viðkomandi eigi að fá aukið vægi í algríminu, það verður ótrúlega mikill línudans,“ segir Guðmundur en jafnvægi verði að vera á milli náttúrulegra færslna frá notendum, keyptra færslna og keyptra auglýsinga.

Hann segir áskriftarleiðina í raun hafa komið sér á óvart í fyrstu.

„Svo þegar maður hugsar þetta aðeins þá bara „já auðvitað“ því þetta er í rauninni bara fljótlegasta leiðin fyrir þau til þess, án þess að fara í einhverja mikla tækniþróun eða mikla vinnu að skapa tekjur hratt,“ segir Guðmundur.

Framtíðin ein muni leiða í ljós kosti og galla áskriftarleiðarinnar en hann hefur vissar áhyggjur af því að óprúttnir aðilar muni nýta sér þetta.

„Svo er annað sem maður hefur áhyggjur af sem snýr kannski að þessu, það er hversu margir svindlarar þarna úti munu reyna að hafa fé af fólki sem heldur að það sé að kaupa þetta. Ég held að núna komi bylgja af slíku,“ segir Guðmundur.

mbl.is