Nýtt tvist á borgara: fiskur, brie og beikon

„Ég ætla að sýna ykkur á 5 mínútum mitt tvist á hamborgara, ég ætla að nota fiskibollur“ segir Óskar Finnsson kokkur. Í þætti dagsins af Korter í kvöldmat lyftir hann fiskibollum á hærra plan og sýnir tvær útgáfur af fiskibolluborgurum, annar með reyktum laxi og piparrót, hinn með beikoni og brie osti. „Ég hef trú á því að allir muni elska þennan rétt!“

Fyrsta skrefið er að skera kartöflur í báta og baka í ofni í ólívuolíu í 40 mín á 200 gráðum. Beikoninu er dreift á bökunarplötu eða grind og sett í ofninn með kartöflunum.

Bollurnar þurfa mjög stuttan steikingatíma, svo það er best að vera búinn að skera grænmetið niður áður. Það er um að gera að velja það grænmeti sem manni finnst best á borgarann. Með fiskiborgurunum valdi Óskar lauk, tómat, gula papriku og salatblöð, sem hann sker niður ásamt reykta laxinum.

Góð sósa lykilatriði

Það sem gerir borgara frábæran er góð sósa. Hér eru tvær tilbúnar sósur bragðbættar til að þær passi sem best með borgurunum. Piparrótarsósan er sett í skál og fersk piparrót rifinn út í. „Við viljum ekki setja neitt aukalega í gráðaostasósuna sem inniheldur salt, það er nóg salt í henni fyrir, svo við setjum sex dropa af tabasco út í hana. Þá fáum við gráðaosta-rjómabragðið og smá chili með. Þetta er ekki flóknara, bara setja út í og hræra!“

Hvað magnið af tabasco og piparrót varðar er best að smakka sósurnar til, þar til þær eru komnar með ákjósanlegan styrkleika.

Tvær bollur mynda einn borgara

„Við byrjum á því að skera bollurnar í tvennt því við steikjum þær í raun bara á annarri hliðinni, svo mynda fjórar helmingar einn borgara.“

Pannan er hituð og smjör eða ólífuolía sett á hana. Fiskibollunum er svo raðað á heita pönnuna með sárið niður. „Við viljum láta bollurnar krauma í smjörunni á pönnunni án þess að steikja þær of mikið, svo við lækkum á pönnunni svo þetta brenni ekki.“

Fjórum fiskibollum er raðað saman og sneiðar af brie osti settar ofan á þær ásamt beikonsneiðum. Til að bræða ostinn hraðar er gott að setja lok á pönnuna um stund.

Það er hægt að fara ýmsar leiðir í brauðvali, Óskar notar hér bæði brioche- og hamborgarabrauð.

Brioche-brauðið er smurt með piparrótarsósunni og fyllt með salati, papriku, lauk, fiskibollum og vel af reykta laxinum. Yfir þetta er svo gott að setja enn meiri sósu áður en borgaranum er lokað.

Á hamborgarabrauðið fer gráðaostasósan, sama úrval af grænmeti og loks fiskibollurnar með brædda brie-ostinum og beikoni. Sömu sögur er að segja í sósumálum á þessum borgara, það er alltaf gott að fá aðeins meiri sósu yfir áður en borgaranum er lokað.

Kartöflubátarnir eru teknir úr ofninum og bornir fram ásamt þessum snilldar borgurum, eins og Óskar orðar það.

mbl.is