Súkkulaðibaka með heimagerðri nutella-fyllingu

Grenjaðu ofan í diskinn hvað þetta er tryllt! Tertuna má einnig frysta og eiga til dimmu daganna. Ég frysti hana í sneiðum og stelst svo í eina sneið, tvær skeiðar og kannski kaffibolla handa okkur Kalla á dimmum kvöldum. Guðdómlegt!

Ef ég er með gesti ber ég fram fersk ber og amarettórjóma með tertunni. Þá set ég slurk af amarettó út í þeyttan rjóma. 

Botn:
3 msk kókosolía eða smjör
12 ferskar döðlur, steinhreinsaðar
200 g möndlur 
salt á hnífsoddi

Súkkulaðifylling:
250 g kókosrjómi (þykki hlutinn í dósinni)
2 msk kókosvatn (þunni hlutinn)
125 g heslihnetusmjör (kostar sitt en er virkilega gott)
125 g ferskar döðlur
50 hreint kakó
¼ tsk salt
1 tsk vanilludropar eða duft

Botn:
Setjið möndlurnar í matvinnsluvél og malið gróft. Bætið döðlum og kókosolíu út í. Þrýstið deiginu ofan í smellu- eða sílíkonmót og upp á barmana. Ég notaði 23 cm mót. 

Stillið ofninn á 160 gráður og bakið botninn í 20 mínútur.

Kælið botninn.

Fylling:
Setjið allt í matvinnsluvél. Best er að byrja á döðlum og kókosvatni. Bætið svo öllu saman við og látið vélina ganga uns fyllingin verður kekkjalaus. 
Setjið fyllinguna í skelina og kælið í 2-3 tíma. 

Ég skreytti tertuna með smá kókosrjóma til að fá hana tvílita að ofan. Gott er að bera fram fersk ber og amarettó-rjóma með tertunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert