Ekta amerísk eplabaka

mbl.is/EH

Þessa dásemdaruppskrift af eplaböku fundum við forðum á vefsíðunni allrecipes.com, en síðan þá hefur hún margoft verið bökuð, endurbætt og fínpússuð að smekk ritstjórnar. Það vekur alla jafna mikla gleði hjá vinum og vandamönnum þegar þessi er borin á borð, enda fátt sem gleður bragðlaukana eins og vel heppnuð eplabaka. 

Ekta amerísk eplabaka
 • Eina uppskrift af bökudeigi. Finna má skothelda bökudeigsuppskrift með því að smella HÉR, annars er líka hægt að nota tilbúið deig… já það má!
 • 1/2 bolli smjör (saltað eða ósaltað eftir smekk)
 • 3 matskeiðar hveiti (við höfum prófað hvítt, heilhveiti og spelt, allt steinliggur)
 • Klípa af salti
 • 1/4 bolli vatn
 • 1/2 bolli sykur (við höfum notað bæði hvítan sykur og hrásykur, allt eftir hvað er til í skápnum hverju sinni og bæði virkar vel)
 • 1/2 bolli púðursykur
 • 8 meðalstór epli
 • Kanill

Aðferð:

 1. Hitið ofninn í 220 gráður. Bræðið smjörið í potti við lágan hita og bætið hveitinu samanvið svo úr verði þykkur grautur. Bætið þá næst við vatni, sykri og púðursykri og hitið upp að suðu. Lækkið þá hitann og látið karamelluna malla þar til hún verður þykk og góð. Takið hana af hitanum og leyfið henni að kólna í pottinum. Við höfum bætt klípu af salti við karamelluna við góðar undirtektir.
 2. Flysjið eplin, kjarnhreinsið og skerið niður í þunnar sneiðar.
 3. Leggið útflett bökudeigið í botninn á eldföstu móti. Nota má hringlótt eða ferkantað mót eftir því hvað til er í eldhúsinu, en gætið þess að deigið nái vel upp fyrir brúnir mótsins. Raðið eplunum í mótið ofan á deigið, gott er að mynda smá hól í miðjunni með eplunum, þá verður bakan lögulegri. Stráið því næst kanil yfir eplin eftir smekk.
 4. Skerið lengjur úr bökudeiginu og leggið yfir eplin þvers og kruss, en ekki svo þétt að það sjáist ekki í eplin. Gott er að festa endana með því að klípa þá saman við deigið á brúnum mótsins. Hellið þá næst karamellunni varlega yfir bökudeigið sem liggur efst í mótinu, það er í góðu lagi þó karamellan renni aðeins niður á eplin.
 5. Stingið eplabombunni inn í ofn og bakið í 15 mínútur á 220 gráðum, lækkið þá hitann niður í 175 gráður og bakið í um það bil 40 mínútur í viðbót, eða þar til eplin eru orðin bökuð og mjúk. 
 6. Njótið í góðra vina hópi með þeyttum rjóma eða jafnvel vanilluís ef vel viðrar.
mbl.is