Magnað mexíkóostapasta með skinku, papriku og chili

mbl.is/Svava Gunnars

„Þegar það liggur grænmeti á síðasta snúningi í ísskápnum, eða afgangar af ostum, þá þykir mér gott að nýta það í pastarétt," segir Svava Gunnarsdóttir meistarakokkur með meiru um þennan pastarétt sem ætti að falla í kramið hjá öllum.

„Það virðist sama hvaða grænmeti og ostar er notað, útkoman verður alltaf góð. Pastaréttir eru því fullkomnir í ísskápstiltektum. Þessi varð svo góður að ég flýtti mér að skrifa niður það sem fór í hann til að geta endurtekið leikinn.“

Matarbloggið hennar Svövu, Ljúfmeti & lekkerheit, má nálgast HÉR.

Mexíkóostapasta með skinku, papriku og chili – uppskrift fyrir 6

  • 2 skarlottulaukar, saxaðir smátt
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1 chili, fræhreinsað og saxað smátt
  • skinka (ég var með hálft skinkubréf), skorin í bita
  • 1 ½  rauð paprika, skorin í bita
  • 1/2 box sveppir, sneiddir
  • 1 ½ mexíkóostur
  • 1 matreiðslurjómi (5 dl)
  • pasta (ég var með 1 poka, 500 g.)

Aðferð:

Hitið olíu á pönnu við miðlungsháan hita og mýkið skarlottulauk, hvítlauk og chili í nokkrar mínútur. Hækkið hitann og bætið skinku, papriku og sveppum á pönnuna. Steikið saman í nokkrar mínútur og bætið þá matreiðslurjóma og mexíkóosti (gott að skera hann í litla teninga áður svo hann bráðni hraðar) á pönnuna og látið sjóða saman þar til osturinn hefur bráðnað. Smakkið til með salti.

Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakkningu og blandið saman við sósuna. Það getur verið gott að setja smá af pastavatninu í pastasósuna til að þynna hana.

mbl.is/Svava Gunnars
mbl.is