Svona heldur þú fullkomið matarboð

Miklu máli skiptir hvernig lagt er á borð.
Miklu máli skiptir hvernig lagt er á borð. Kristinn Magnússon

Það eru fáir flinkari í mannasiðum en Albert Eiríksson og hér skrifar hann um hvernig undirbúa skuli matarboð eftir kúnstarinnar reglum. Við höldum nefnilega að við séum með þetta á hreinu en við þennan lestur á ábyggilega mörgum eftir að bregða í brún enda kemur í ljós að við kunnum hreint ekki neitt. 

Matarbloggið hans Alberts er hægt að nálgast HÉR.

Albert Eiríksson og Bergþór Pálsson.
Albert Eiríksson og Bergþór Pálsson. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Matarboð undirbúið

Að ýmsu er að hyggja áður en matargesti ber að garði. Það er augnayndi að sjá fallega lagt á borð og gott er að gefa sér góðan tíma í að undirbúa borðið, jafnvel daginn áður, skipuleggja og koma öllu haganlega fyrir. Eins og venjulega þarf að meta tilefnið og umfangið. Þegar mikið stendur til notum við spariborðbúnaðinn.

Lagt á borðið. Ef léttvínsglösin og sparidiskarnir hafa ekki verið notuð lengi er um að gera að renna þeim í gegnum uppþvottavélina á hraðprógrammi og pússa að því loknu með hreinu stykki.
Brún matardisksins á að vera rétt fyrir innan brún borðsins, servíettan kemur ofan á matardiskinn, gaffall vinstra megin við diskinn og hnífur hægra megin, hvort tveggja í sömu fjarlægð frá brúninni og matardiskurinn. Eftirréttaráhöldin, gaffall og skeið, fyrir ofan diskinn. Skeiðin fyrir ofan gaffalinn og hald gaffalsins snýr í áttina að aðalréttagafflinum en hald skeiðarinnar í áttina að hnífnum. Súpuskeið kemur svo hægra megin við hnífinn. Glösin í boga eða í línu, eftir smekk, fyrir ofan hægra megin. Fyrsta vínglas skal sett beint fyrir ofan aðalréttahnífinn og vatnsglasið hægra megin við það.

Hver er hvar? Það er ágætt að ákveða sætaskipan, hver situr hvar, með því að skrifa nafn gestanna á miða og stilla upp, t.d. fyrir ofan gaffla. Oft er þægilegt að gestgjafar séu við enda borðsins. Best fer á að hjón sitji ekki langt frá hvort öðru, en á móti hvort öðru á ská getur brotið skemmtilega upp. Ef því verður viðkomið er gott að hafa karla og konur til skiptis. Í mjög formlegum boðum er sá háttur hafður á að heiðursgesturinn er húsbóndanum á hægri hönd, sé um konu að ræða, en á hægri hönd húsfreyjunnar ef um karl er að ræða. Hér er líka hugmynd að sætaskipan

Borðskreyting og kerti. Falleg blómaskreyting setur alltaf punktinn yfir i-ið. Passa þarf að hún sé ekki of há til að skyggja ekki á gesti, oft er miðað við 20 cm. Sama á við um kertastjaka, margarma stjakar taka mikið pláss og skyggja á. Hafa verður í huga að matarföt, skálar og annað slíkt tekur pláss á borðinu. Til að gera sér grein fyrir plássinu er gott að leggja þetta stutta stund tómt á borðið eftir að búið er að leggja matardiskana, áhöldin og glösin á, áður en gestirnir koma.

Munnþurkur. Þótt margir telji servíetturnar mest upp á punt eru þær þó mikilvægar sérstaklega ef slys verður. Með aðstoð netsins má finna fjölmörg servíettubrot og gott er að æfa sig í þeim tímanlega. Einfaldast er að hafa sama brotið fyrir alla gestina, en það getur verið skemmtilegt uppbrot að hafa tvö servíettubrot og nota þau til skiptis. Um notkun á munnþurrkum.

Létt stemning. Létt stemning og notalegt andrúmsloft er það mikilvægasta af öllu í matarboði þegar upp er staðið. Það þarf að gæta þess að allir fái að njóta sín og að umræðuefni í matarboðinu séu ekki einsleit. Það á hér við eins og svo oft áður að æfingin skapar meistarann. Okkur verða á mistök, en af þeim má læra. Það er sjálfsögð kurteisi við gestgjafa og aðra veislugesti að fólk haldi uppi skemmtilegum samræðum yfir borðhaldinu. Getur verið gagnlegt að lesa um ísbrjóta.

Nokkur atriði:

  • Bjóða gesti velkomna þannig að þeim líði vel strax frá fyrstu mínútu. Ef hjón bjóða heim taka þau bæði á móti gestum.
  • Leggja dúkinn á borðið deginum áður svo „hann taki sig“.
  • Hafa blómavasa til reiðu, e.t.v. koma gestir með blóm með sér. Sumir senda þau á undan sér.
  • Velja ljúfa viðeigandi tónlist og gæta þess að hún sé ekki of hátt stillt.
  • Velja borðvín af kostgæfni og huga að hitastigi vínanna.
  • Hafa notalegt á snyrtingunni, næga sápu, handklæði og pappír, e.t.v. kerti.
  • Prenta út söngtexta eða annað sem á að nota í leikjum.
  • Varast eldfim málefni og sjúkrasögur í boðinu.
  • Gestgjafar skipta með sér verkum, svo allt gangi fumlaust fyrir sig.
  • Víða erlendis þykir sjálfsagt að senda lítið þakkarkort eftir kvöldverðarboð. Hér á landi þakka margir fyrir sig með símtali daginn eftir, SMS-i eða með skilaboðum á fasbókinni.
Þessi mynd er fengin af heimasíðu franska sendiráðsins og er …
Þessi mynd er fengin af heimasíðu franska sendiráðsins og er afar gagnleg. mbl.is/Franska sendiráðið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert