Fátt verra en að klára gasið

Ragnar Freyr Ingvarsson.
Ragnar Freyr Ingvarsson. Eggert Jóhannesson

Ragnar Frey Ingvarsson eða Lækninn í eldhúsinu þarf ekki að kynna fyrir neinum en hann hefur yfir að ráða forláta eldhúsi sem hann hannaði sjálfur. Hann segist hafa legið yfir skissum í marga mánuði áður en hann keypti innréttingarnar því það borgar sig að vanda til verka þegar mikilvægasta rými heimilisins er hannað. Uppleggið hjá Ragnari var að sameina fjölskylduna á einum stað og hann er ekki frá því að það hafi tekist.

Hvað er best við eldhúsið þitt?

Ætli það sé ekki hönnunin á því sem ég kann best við. Eldhúsið hannaði ég sjálfur, auðvitað með hjálp frá vinum og vandamönnum sem gáfu góð ráð. Kjarni eldhússins er eyjan sem er fjögra metra löng og utan um hana geta allir heimilismenn og gestir sameinast. Kokkurinn er aldrei einn inn í eldhúsinu því við enda eyjunnar geta fjölskyldufólk og gestir tyllt sér og spjallað við mann á meðan verið er að undirbúa matinn. Þá er eyjan einnig hönnuð með það í huga að margir geti hjálpast að við matargerðina – á meðan einn stendur yfir hlóðunum þá geta aðrir verið sitt hvorum megin við hana og skorið niður í salat eða undirbúið meðlætið. Þá verður að segjast að ég er vel tækjum búinn – með eiginlega öll tól og áhöld sem hugur áhugakokksins girnist!

Hvað einkennir vel hannað eldhús?

Það er auðvitað breytilegt. Það verður auðvitað að vera nothæft. Það er gaman ef það er fallegt og bjóðandi. Það hjálpar ef það vekur innblástur hjá kokknum.

Hvað er mikilvægast?

Að eldhúsið sé praktískt. Að það hjálpi kokknum að elda – létti verkið.

Uppáhaldsheimilistækið?

Það er af mörgu að taka. Ég á góða gaseldavél sem hefur þjónað mér undanfarin tíu ár. Þá er ég einnig með tvo nútímalega ofna frá Bosch. Annar er gufuofn með fullt af skemmtilegum fídusum og hinn er bæði venjulegur ofn og örbylgjuofn. Góð tæki létta án efa matreiðsluna til muna.

Mikilvægasta eldhúsáhaldið?

Valið stendur í mínum huga á milli hnífsins og svo góðrar pönnu. Með góða pönnu og beittan hníf er eiginlega hægt að elda hvað sem er. Að þessu sinni ætla ég að nefna þessa pönnu – sem er úr smíðajárni og er frá Lodge. Hún hentar jafnvel til steikingar og til sjálfsvarnar, en nokkuð þungt í henni. Kosturinn er að hún heldur og dreifir hitanum vel og jafnt. Þá held ég stundum að smíðajárnspönnur henti sérstaklega vel til að brúna kjöt – það verður einhvern veginn svo góð og jöfn karmellisering á kjötinu þegar það er steikt á svona góðri pönnu.

Hverju má alls ekki gleyma?

Að vera viss um að það sé gas á kútnum eða vera viss um að eiga varakút. Það er ekkert meira stressandi en að klára gasið – með fullt hús af svöngum gestum!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert