Nautalund að hætti RVK meat

Grilluð nautalund að hætti RVK Meat.
Grilluð nautalund að hætti RVK Meat. Ásdís Ásgeirsdóttir

Hrópum við ekki halelúja þegar okkur áskotnast uppskrift að nautalund frá steikarstaðnum RKV meat. Með þessa uppskrift að vopni er nánast óhugsandi að eitthvað klikki. 

Grilluð nautalund

Fyrir 4
 • 1 kg nautalund skorin í 250 g steikur
 • 8 stk. vorlaukur
 • seljurótarmauk (sjá uppskrift að neðan)
 • 600-800 g kartöflur, smælki
 • soðgljái (demi glaze)
 • 1 stk. seljurót
 • olía
 • salt og pipar

Skerið endana af seljurótinni en látið hýðið vera á. Hellið smá olíu yfir og saltið. Setjið í 170°C heitan ofn og setjið hitamæli í miðjuna á seljurótinni og eldið þar til kjarnhitinn nær 90°C.

Grillið nautalundina á mjög heitu grilli, þar til ykkar fullkomnu steikingu er náð. Okkar meðmæli er „medium rare“ eða þar til kjarnhitinn nær 55°C. Gott er að láta steikina hvíla í smátíma áður en hún er borin fram.

Seljurótin er skorin niður í bita og elduð á pönnu með olíu, salti og pipar ásamt vorlauknum.

Sjóðið kartöflurnar og pönnusteikið þær svo. Einnig er hægt að elda þær í ofni með olíu og smá timjan og hvítlauk.

Seljurótarmauk

 • 1 stk. seljurót
 • 250 ml rjómi
 • 250 ml mjólk
 • salt
 • smjör

Afhýðið seljurótina og skerið í bita og setjið í pott með rjóma og mjólk. Eldið þar til mjúkt. Setjið í blandara og maukið. Bætið smjöri við og smakkið til með salti. Seljurótarmaukið er svo hitað upp í potti áður en það er borið fram.

Raðið seljurót á diskinn og seljurótarmaukinu. Gott er að raspa smá ferska piparrót yfir og skreyta með smá vatnakarsa. Setjið svo nautalundina á diskinn. Hellið soðgljáa yfir hana og berið fram.

Almar Ingvi Garðarsson, eigandi og veitingastjóri, og Guðmundur Víðir Víðisson, …
Almar Ingvi Garðarsson, eigandi og veitingastjóri, og Guðmundur Víðir Víðisson, eigandi og yfirkokkur RVK Meat. Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is