Mexíkóveisla Evu Laufeyjar

mbl.is/Eva Laufey

Haldið þið ekki að Mexíkódrottningin sé komin með nýja uppskrift en fyrir þá sem eru ekki alveg með á hreinu hvað verið er að vísa í þá er það að sjálfsögðu sú staðreynd að tvö ár í röð hefur Eva Laufey átt vinsælustu uppskriftina á Matarvefnum og geri aðrir betur.

Hér er hún með svokallað tortillaskálar með fyllingu sem hún segir að hafi slegið í gegn á heimilinu, ekki síst hjá tveggja ára dóttur hennar. Þetta getur sumsé ekki klikkað. Verði ykur að góðu.

mbl.is/Eva Laufey

Tortillaskálar Evu Laufeyjar

fyrir fjóra

  • 1 msk. olía
  • 600 g kalkúnahakk
  • 1 laukur
  • 1/4 rautt chili
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 rauð paprika
  • 5 sveppir
  • Salt og pipar
  • 1 tsk. paprika
  • 1 tsk. rósmarín
  • 1 tsk. kummin
  • 1 tsk. þúsund og ein nótt kryddblanda (ég veit ekki hvort hún fáist í öllum verslunum en þið notið bara góða kryddblöndu í stað hennar ef hún er ekki lengur seld)
  • 1 krukka maukaðir tómatar
  • 2 msk. salsasósa
  • 2 msk. hreinn rjómaostur
  • 1/2 kjúklingateningur
  • Handfylli smátt saxaður kóríander
  • Tortillavefjur

Ofan á:

  • 150 g rifinn ostur
  • Sýrður rjómi
  • Lárpera
  • Kirsuberjatómatar
  • Vorlaukur
  • Kóríander

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°C.
  2. Mótið tortillakökurnar með því að nota bollakökuform, þrýstið kökunum ofan í formið og mótið lítinn vasa. Setjið inn í ofn við 180°C í 15 mínútur eða þar til kökurnar eru gullinbrúnar.
  3. Hitið olíu á pönnu. Saxið niður lauk, hvítlauk og chili og steikið þar til mjúkt í gegn.
  4. Bætið kalkúnahakkinu út á pönnuna og kryddið með þeim kryddum sem talin eru upp hér að ofan.
  5. Skerið niður papriku, sveppi og kóríander. Bætið út á hakkblönduna og eldið þar til kalkúnahakkið er fulleldað.
  6. Bætið maukuðum tómötum, rjómaosti og salsasósu út á. Kryddið vel með salti og pipar og bætið hálfum kjúklingateningi saman við.
  7. Leyfið hakkblöndunni að malla við vægan hita í tíu mínútur.
  8. Á meðan skerið þið niður lárperu, kóríander, kirsuberjatómata, vorlauk og blandið saman í skál. Kryddið með salti og hellið smá ólífuolíu yfir grænmetið.
  9. Þegar hakkblandan hefur mallað í tíu mínútur skiptið þið henni niður í tortillakökurnar og setjið rifinn ost yfir.
  10. Inn í ofn við 180°C í tíu mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og gullinbrúnn.

Berið fram með sýrðum rjóma, fersku salsa og enn meiru af kóríander…já já það fær enginn nóg af honum.

mbl.is/Eva Laufey
mbl.is/Eva Laufey
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert