Gleymdi 50 milljónum á veitingastað

Armando Markaj brá heldur betur í brún þegar hann uppgötvaði umslag sem innihélt ávísun upp á rúmar 50 milljónir króna.

Atvikið átti sér stað á Patzy´s Pizzeria í New York og hefur eðlilega vakið töluverða athygli. Markaj áttaði sig strax á því að líklegasti eigandinn væri kona nokkur sem hafði setið við borðið skömmu áður ásamt dóttur sinni. Hún hafði þó ekki skilið eftir þjórfé eins og tíðkast í Bandaríkjunum.

Markaj lét eiganda staðarins vita sem hafði samband við fréttastöð á svæðinu til að finna eiganda ávísunarinnar sem reyndist vera Karen Vinacour.

Vinacour sjálf uppgötvaði ekki fyrr en daginn eftir að ávísunin var horfin úr skjalabunkanum sem hún var með en peningarnir áttu að fara upp í innborgun í íbúð. Í fyrstu taldi hún að það yrði ekkert mál að fella ávísunina úr gildi en þar sem hún var stíluð á handhafa var henni tjáð að það væri þriggja mánaða ferli. Vinacour var því í algjöru áfalli en fékk sem betur fór símtal frá fréttastöð sem tjáði henni að ávísunin væri fundin og hún gæti komið á veitingastaðinn til að fá hana afhenta. 

Vinacour var eðlilega í skýjunum og bað Markaj í leiðinni afsökunar á að hafa ekki gefið honum þjórfé. Að hennar sögn móðgaðist hún út í hann þegar hún spurði af hverju það væru ekki myndir af fleiri konum á veggjunum og hann svaraði því til að kannski borðuðu svo fáar konur pítsur. 

Þar höfum við það og allt er gott sem endar vel. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert