Ekta mömmuhryggur eins og við elskum

mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir

„Gott krydd skiptir höfuðmáli til að fá bragðmikla og góða skorpu og alls ekki spara það að mínu mati,“ segir Berglind Hreiðarsdóttir á Gotteri.is um þennan rétt. „Gott að bera ólífuolíu á hrygginn fyrst og nudda kryddinu síðan inn í skorpuna og strá öðru kryddlagi lagi yfir hann allan áður en hann fer í ofninn. Þessi lambakjötskryddblanda frá Kjötbúðinni passaði fullkomlega á hrygginn svo ég mæli með þið nælið ykkur í slíkt.“

Lambahryggur ala amma Guðrún

Fyrir um 6-8 manns

Lambahryggur

 • ferskur lambahryggur frá Kjötbúðinni (um 3kg)
 • lambakjötskrydd Kjötbúðarinnar
 • 1 msk. ólífuolía
 • 50 g smjör
 • 700 ml vatn
 • ½ laukur
 • 1 stk. gulrót
 1. Hitið ofninn í 150°C.
 2. Skolið og þerrið hrygginn vel og nuddið á hann ólífuolíunni.
 3. Kryddið vel með lambakjötskryddblöndu Kjötbúðarinnar (ekki gleyma lundunum undir).
 4. Setjið í stóran steikarpott, smjörklípur hér og þar ásamt lauk og gulrót í um þremur bitum (laukur og gulrót aðeins upp á betra soð í sósuna).
 5. Leyfið hryggnum að malla í ofninum í um 3 klst. (1 klst. kílóið) og ausið yfir hann soði úr botninum á um það bil 45 mín fresti. Þið sem notið kjöthitamæli getið farið í skref 6 þegar kjarnhiti er orðinn 65-70 en þegar hann er eldaður svona „ömmustyle“ þá finnst mér hann alveg mega vera meira eldaður en minna.
 6. Hellið nú soðinu í pott í gegnum fínt sigti til að geta byrjað á sósunni.
 7. Hækkið hitann í 200°C og takið lokið af steikarpottinum.
 8. Fylgist vel með skorpunni og takið hrygginn út úr þegar hún er orðin stökk (tekur um 15 mínútur) og leyfið að standa í að minnsta kosti 15 mínútur áður en hann er skorinn niður.  Passið ykkur þó að taka hann ekki út fyrr en skorpan er orðin stökk, án þess að hún brenni auðvitað. Nokkrar mínútur til eða frá skipta sköpum upp á að þetta heppnist svo standið vaktina vel í lokin.

Brún sósa

 • soðið úr steikarpottinum
 • 400 ml vatn
 • 500 ml rjómi
 • 1 tsk. lambakraftur
 • 1 msk. púðursykur
 • salt og pipar eftir smekk
 • maisenamjöl og sósulitur
 1. Hellið vatninu saman við soðið og náið upp suðunni.
 2. Þykkið aðeins með maisenamjöli og bætið sykri, krafti og rjóma saman við og hrærið vel.
 3. Litið með sósulit sé þess óskað og smakkið til með salti, pipar eða meiri lambakrafti.
 4. Leyfið sósunni að malla á meðan kjötið klárast að eldast og á meðan það hvílir.

Karamellukartöflur

 • kartöflur 12-16 stk. meðalstórar
 • sykur
 • 50 g smjör
 1. Sjóðið og flysjið kartöflurnar og skerið þær til helminga.
 2. Setjið botnfylli af sykri á pönnu (um ½ cm þykkt lag) og stillið á hæsta hita.
 3. Hristið pönnuna og varist að sykurinn brenni þegar hann byrjar að bráðna.
 4. Þegar hann er bráðinn má lækka vel niður í hellunni, setja smjörið saman við og hræra vel þar til karamella hefur myndast.
 5. Hrærið kartöflunum varlega saman við karamelluna og hjúpið vel.
 6. Setjið kartöflurnar í ílát og notið sykurlöginn sem eftir er á pönnunni fyrir gulræturnar (sjá uppskrift að neðan).

Sykraðar gulrætur

 • 7-8 stk. meðalstórar gulrætur
 • sykurlögur af kartöflunum
 1. Skerið gulræturnar í bita og sjóðið þar til þær mýkjast.
 2. Látið vatnið renna af og veltið upp úr sykurleginum sem eftir stóð hjá kartöflunum.

Annað meðlæti

 • Grænar baunir úr dós
 • Rauðkál úr dós (það má þó auðvitað vera heimalagað)
 • Rifsberjasulta
mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is