Púðursykurmarens með karamellu

Ljósmynd/Thelma Þorbergs

Stundum þarf svo lítið til að lífið verði miklu betra og ofarlega þar á lista er góður marens. Sjálf á ég afar erfitt með að baka hann því ég borða yfirleitt alla marensblönduna áður en hún kemst inn í ofn og ligg svo í sykurvímu á eldhúsgólfinu næstu klukkutímana - eða því sem næst.

Það er ein af okkar uppáhalds, Thelma Þorbergs hjá Freistingum Thelmu, sem á þessa uppskrift og eins og allt sem hún gerir er þessi kaka algjörlega upp á tíu. Einföld, æðisleg og akkúrat það sem við þurfum á degi sem þessum.

Púðursykurmarens með karamellu

Marens

  • 3 eggjahvítur
  • 200 g púðursykur

Karamella

  • 200 g púðursykur
  • 1 dl rjómi frá Gott í matinn
  • 60 g smjör
  • ½ tsk. sjávarsalt
  • 1 tsk. vanilla
  • ½ lítri rjómi á milli botna
Aðferð
  1. Þeytið eggjahvítur og púðursykur þangað til blandan er orðin stíf og þétt.

  2. Setjið smjörpappír á tvær bökunarplötur, skiptið marensinum til helminga á hvora plötu fyrir sig og myndið jafnstóra hringi.

  3. Gott er að strika eftir t.d hringlaga bökunarformi svo botnarnir verði jafnstórir.

  4. Bakið við 150 gráða hita í rúmlega 50 mínútur eða þar til marensinn er orðinn þurr viðkomu.

  5. Kælið botnana alveg áður en þið setjið á þá.

Púðursykurskaramella

  1. Setjið smjör í pott og bræðið.

  2. Bætið púðursykri saman við ásamt rjóma, salti og vanilludropum og hrærið þar til sykurinn hefur náð að bráðna alveg.

  3. Leyfið karamellunni að sjóða og hrærið stanslaust í rúmar þrjár mínútur, eða þar til karamellan hefur náð að þykkna.

  4. Ef ykkur finnst karamellan of þykk er gott að bæta örlitlu magni af rjóma saman við.

  5. Setjið pottinn til hliðar og leyfið karamellunni að kólna.

  6. Karamellan er einstaklega góð með alls kyns kökum, marens, súkkulaðiköku, ofan á smákökur og sandköku til dæmis.

Setjið annan botninn á kökudisk, þeytið rjóma og setjið ofan á, setjið því næst hinn botninn ofan á rjómann og svo karamellu yfir alla kökuna.  

Geymið kökuna í kæli þar til hún er borin fram.

Ljósmynd/Thelma Þorbergs
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert