Kjúklingur löðrandi í villisveppaostasósu

Ljósmynd/Stella Rún Steinþórsdóttir

Stella Rún Steinþórsdóttir er snillingurinn á bak við matarbloggið Ilmurinn úr eldhúsinu sem er hreint frábær síða. Hér erum við með kjúklingarétt sem tikkar í öll box enda fátt betra en góður kjúklingaréttur - hvað þá er hann er löðrandi í villisveppaostasósu.

Stella segir ást hennar á pottajárnspönnum ekki vera neitt leyndarmál. Pottjárnið hitni hægt og jafnt og sé tilvalið í alla mögulega eldamennsku.

„Það kemur svo falleg steikarhúð á kjöt og grænmeti sem fengið hefur að malla í pottjárnspönnu. Hér heima eru pönnurnar notaðar í eggjakökur, fritatta, gratíneraða pastarétti, pönnupizzur og margt fleira. Í raun eru þær góðar í allt nema kannski að spæla egg, ég myndi ekki mæla með því að reyna það.

Pottjárnspönnurnar sem ég á eru frá Lodge sem er bandarískur framleiðandi, einn sá elsti í bransanum. Þær fást t.d. í Kokku í öllum stærðum og gerðum. Ég mæli með að þið prófið að gefa viðloðunarfríu pönnunum frí og gefið pottjárninu séns. Hér að neðan er kjúklingaréttur sem við gerum oft hér heima. Best finnst mér að nota lærakjöt, þá ýmist beinlaus læri eða læri án mjaðmabeins."

Kjúklingalæri í villisveppaostasósu

 • 1 msk. olía
 • 1 msk. smjör
 • 8 kjúklingalæri
 • 2 laukar
 • 4-6 meðalstórar gulrætur
 • 250 gr sveppir
 • Salt og pipar
 • 2 dl vatn
 • 1 villisveppaostur
 • 50 gr rjómaostur (má sleppa)
 • 300 ml matreiðslurjómi
 • E.t.v. örlítill kjúklingakraftur

Aðferð:

 1. Steikið grænmetið upp úr smjörinu og olíunni þar til mjúkt.
 2. Fjarlægið grænmetið af pönnunni en þrífið ekki á milli og aukið hitann.
 3. Hitið ofninn í 190 gráður, ég nota undir/yfir hita.
 4. Kryddið kjúklingalærin með salti og pipar.
 5. Steikið lærin á skinninu á vel heitri pönnunni. Þannig brúnast þau og fá góða húð.
 6. Snúið lærunum og bætið grænmetinu aftur út á pönnuna.
 7. Setjið pönnuna í ofninn á meðan að sósan er útbúin.
 8. Bræðið villisveppaostinn og rjómaostinn í vatninu og rjómanum. Finnist ykkur vanta bragð má bæta við sósuna örlitlum kjúklingakrafti.
 9. Takið pönnuna úr ofninum og hellið sósunni yfir allt saman.
 10. Leyfið kjúklingnum að malla í sósunni inni í ofni þar til að lærin eru elduð í gegn. Heildareldunartími ætti að vera ca. 30 mín en það má nota kjöthitamæli til að vera alveg viss. Kjarnhiti ætti þá að vera 73-75 gráður.
 11. Smakkið til með salti og pipar.
 12. Berið fram með ykkar eftirlætis meðlæti og fersku grænmeti.

Þennan rétt má bera fram með öllu því sem hugurinn girnist. Ég hef verið með hýðisgrjón og bakaðar gulrætur, kramdar parmesankartöflur og gott salat. Ketóliðar gætu útbúið sér eitthvað gott blómkálsmeðlæti og svo mætti lengi telja. Þetta er hinn fullkomni helgarkjúklingur eða bara sparilegur þriðjudagskjúlli – þið verðið ekki svikin!

- - -

Fylgstu með Matarvefnum á Instagram og Facebook. Endalaus ævintýri, hugmyndir, skemmtilegir leikir og allt það heitasta heita...

Svo megið þið endilega tagga okkur á Instagram þegar þið eruð að elda eitthvað spennandi @matur.a.mbl

Ljósmynd/Stella Rún Steinþórsdóttir
mbl.is