Sjúklegir humarhalar með parmesanhjúp

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Þegar Berglind Hreiðars á Gotteri.is eldar humar þá vitum við að það er alvöru veisla í gangi. Uppskriftin er algjörlega geggjuð og um leið skemmtilegt tilbrigði við hið hefðbunda (en frábæra) hvítlaukssmjör.

„Á þessu heimili elska allir humar, því er erfitt að áætla magn því ég hugsa það yrði borðað upp til agna, sama hversu mikið það væri! Við erum fimm í fjölskyldu og þegar við gerum humarveislu sem einungis samanstendur af humri notum við yfirleitt um tvö kíló. Ef það myndi fara svo að það yrði afgangur þá er mjög sniðugt að gera humarpizzu daginn eftir með restinni.

Það er hins vegar ekkert grín að útvega sér humar nú til dags þar sem humarstofninn við Ísland er að mér skilst hruninn að mestu. Mér var bent á að hægt væri að kaupa ýmsar stærðir af humri hjá 101 Seafood og mikið sem ég var glöð þegar ég sá þessa aðgengilegu síðu. Ég valdi þá stærð af humri sem hentaði og pantaði, ekki mikið flókið. Ekki skemmdi síðan fyrir að þeir keyrðu humarinn heim að dyrum í framhaldinu," segir Berglind."

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Humar með parmesanhjúp

Fyrir um 2-3 manns

Humar

 • 800 g humarhalar frá 101 Seafood (29-34 í öskju)
 • 150 g bráðið smjör
 • 3 rifin hvítlauksrif
 • 2 msk. söxuð steinselja
 • Salt og pipar

Aðferð:

 1. Kljúfið humarhalana á meðan þeir eru hálffrosnir, hreinsið, þerrið og leggið þá í ofnskúffu. Saltið og piprið.
 2. Hrærið saman smjöri, hvítlauk og steinselju og penslið yfir humarinn áður en parmesanhjúpurinn er settur ofan á.
 3. Geymið restina af smjörblöndunni til þess að bera fram með humrinum, þá getur hver og einn skammtað sér að vild.

Parmesanhjúpur

 • 100 g brauðrasp
 • 40 g rifinn parmesanostur
 • 150 g brætt smjör
 • 2 msk. sítrónusafi
 • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

 1. Blandið öllu saman í skál með höndunum þar til brauðraspið drekkur smjörið og vökvann í sig.
 2. Setjið parmesanblöndu yfir hvern humarhala og bakið í 225°C heitum ofni í um 7-9 mínútur (eftir stærð humarhalanna). Gott er að setja grillið á síðustu 2-3 mínúturnar til þess að fá stökkan og fallegan parmesanhjúp.

Gott er að bera humarinn fram með klettasalati, fetaosti, hvítlauksbrauði og sítrónusneiðum.

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is