Kaffihús á Siglufirði óskar eftir fótleggjum

Fríða súkkulaðikaffihús er staðsett á Siglufirði, en þar færðu landsins …
Fríða súkkulaðikaffihús er staðsett á Siglufirði, en þar færðu landsins besta bolla og súkkulaðimola með. mbl.is/Fríða Súkkulaðikaffihús

Eitt besta kaffihús landsins, Fríða súkkulaðikaffihús, er með stórskemmtilega sýningu á staðnum og óskar eftir fleiri fótleggjum til að mynda.

Við rákumst á dásamlegt innlegg á Instagram þar sem Fríða súkkulaðikaffihús sýnir Fjallabyggð frá öðru sjónarhorni. Fyrir þá sem ekki þekkja til er kaffihúsið í einum fallegasta bæ landsins, Siglufirði. Við höfðum samband við Fríðu sjálfa sem fræddi okkur nánar um verkefnið, en hún framreiðir konfekt og kaffi daglega og sýnir list sína á staðnum.  

„Árið 2010 þegar stóð yfir vinna við Héðinsfjarðargöngin, þá datt mér í hug að klára tengingu bæjarfélaganna Ólafsfjarðar og Siglufjarðar með því að prjóna trefil frá miðbæ Ólafsfjarðar í gegnum göngin til miðbæjar Siglufjarðar. Þegar var búið að sameina þessi tvö bæjarfélög í Fjallabyggð, en það var mikið af gömlum ríg á milli sem ég sá kannski fyrir mér að trefillinn myndi bæta. Þetta tókst, og við vígslu ganganna var síðasta haftið saumað saman á táknrænan hátt í Héðinsfirði. Ég var svo gjörsamlega dolfallin yfir samtakamættinum að hafa náð þessu, svo mér datt í hug, án þess að ætla að gera lítið úr framlagi annarra en þeirra sem búa í Fjallabyggð, að ná öllum íbúunum saman í verk og sýna hvað við stöndum fyrir – eða grunninn að Fjallabyggð. Það eru náttúrlega íbúarnir sem eru grunnurinn, svo að ég tók þetta svolítið bókstaflega og byrjaði að taka myndir af fótunum á öllum íbúum byggðarinnar,“ segir Fríða.

Það eru nú þegar komnir um 200 fætur á mynd upp á vegg og segir Fríða að það vanti um 1.800 myndir til að klára verkið – en hún væri mjög glöð með 1.500 í viðbót. Fríða segir okkur jafnframt að sumarið á kaffihúsinu hafi verið ótrúlegt, en þau voru með opið þrjá daga í viku í vetur og þá fyrir „take-away“.

„Þegar allt var opnað aftur 4. maí sl. voru allir voðalega ánægðir og komu glaðir til að fá sér konfekt, heitt súkkulaði, kökur og vöfflur. Við vissum í raun ekkert hvernig þetta myndi fara af stað og byrjuðum rólega. En það fór allt á fullt fljótlega og það hefur verið mikið að gera í sumar, svo mikið að það er fyrst núna sem ég finn merki þess að ég hafi undan,“ segir Fríða.

Fram undan er því meiri súkkulaðigerð hjá Fríðu ásamt því að klára verkið með fótunum. Því væri glæsilegt ef íbúar Fjallabyggðar kíktu í kaffi til Fríðu við tækifæri og létu smella af sér mynd í leiðinni til að hjálpa til við verkefnið.

Verkefnið fer ört vaxandi eins og sjá má - en …
Verkefnið fer ört vaxandi eins og sjá má - en nú þegar hafa um 200 fótleggir verið myndaðir. mbl.is/Fríða Súkkulaðikaffihús
mbl.is/Fríða Súkkulaðikaffihús
Það er ekki að ástæðulausu að fólk flykkist á kaffihúsið …
Það er ekki að ástæðulausu að fólk flykkist á kaffihúsið til að fá gott súkkulaði, í mola- eða fljótandi formi. mbl.is/Fríða Súkkulaðikaffihús
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert