Eftirrétturinn sem mun breyta lífi þínu

Ljósmynd/María Gomez

Hér erum við með eftirrétt – eða partýrétt sem mun breyta sögunni. Án gríns. Við erum alltaf að leita að einhverju nýju og spennandi, ráðum vart við okkur af kæti og skorum á ykkur að prófa. Það er engin önnur en María Gomez á Paz.is sem á heiðurinn að þessari snilld.

„Stundum þegar ég hef verið að skoða eitthvað fallegt á Pinterest hefur mynd af svona Oreo-lasagna poppað upp sem lætur munnvatnskirtlana fara á fullt svo ég slefa næstum. Það eru ekki bara myndirnar sem eru girnilegar hér, heldur er þetta bara alveg rosalega gott. Ég ákvað að semja mína eigin uppskrift að svona Lasagna og er þokkalega sátt við útkomuna. 

Hér nota ég að sjálfsögðu hinn silkimjúka Philadelphia-rjómaost og svo geggjaðan súkkulaði búðing sem heitir Snack Pack en ég keypti hann í Fjarðarkaup og passar hann fullkomlega í þessa dásemd. Hér þarf líka fullt af rjóma og heilan helling af Oreo-kexinu góða, en til að ná þessum fullkomnu sneiðum mæli ég með að geyma Lasagnað í frysti í eins og 30 mínútur jafnvel lengur,“ segir María um þennan snilldar eftirrétt.

Ljósmynd/María Gomez
Oreo-lasagna með súkkulaðibúðingi
  • 3 kassar af Oreo-kexi
  • 110 gr. smjör
  • 200 gr. eða 1 askja Philadelphia Original
  • 160 gr. flórsykur eða 1 bolli
  • 750 ml af rjóma (best að kaupa 500 ml og svo annan 250 ml og nota hvort í sínu lagi)
  • 2 pakkar af Snack pack (ég notaði 6 bolla af 8, en þið getið notað alla 8, það eru 4 í pakka)

Aðferð

  1. Byrjið á að mala allt kexið í blandara og bræða smjörið í potti.
  2. Takið svo eins og 1 bolla af mylsnu frá til að hafa ofan á.
  3. Dreifið restinni af kexmylsnunni á botninn í eldföstu móti frekar stóru og ferköntuðu.
  4. Gott er að setja álpappír undir sem kemur upp með hliðunum ef þið viljið taka það upp úr mótinu.
  5. Hellið svo bráðna smjörinu jafnt yfir og hrærið í eldfasta mótinu saman og þjappið vel í botninn, mér fannst best að gera það með höndunum.
  6. Setjið svo í frystir meðan þið þeytið rjómaost og flórsykur saman.
  7. Þeytið svo 500 ml af rjóma og hrærið varlega saman við rjómaostablönduna með sleif eða sleikju.
  8. Dreifið svo jafnt yfir botninn. Takið svo búðinginn og setjið hann allan í skál og hrærið hann vel upp.
  9. Dreifið honum svo jafnt yfir rjómaostablönduna.
  10. Þeytið svo 250 ml af rjóma eða meira og dreifið yfir búðinginn.
  11. Stráið svo Oreo-mylsnunni sem tekin var frá yfir allt saman að lokum og setjið í frysti í lágmark 30 mínútur ef þið viljið ná svona fallega skornum sneiðum.
  12. Hægt er að taka upp úr mótinu með því að taka beggja vegna í álpappann eða bara hreinlega bera það fram í eldfasta mótinu en þá er betra að sleppa því að hafa álpappírinn undir.

Punktar

Til að ná þessum fullkomnu sneiðum mæli ég með að geyma lasagnað í frysti í eins og 30 mínútur jafnvel lengur. Ég kaupi Snack Pack-búðinginn í Fjarðarkaupum en ef þið finnið hann ekki getið þið notað hvaða súkkulaðibúðing sem er svo sem. Ég mæli með að nota stórt eldfast mót og setja álpappír ofan í það sem kemur vel upp úr með hliðunum svo þið getið kippt því upp úr mótinu eða jafnvel bara bera það fram í mótinu sjálfu og sleppa þá álpappírnum.

Ljósmynd/María Gomez
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert