Tíu húsráð sem bjarga tilverunni

Ógæfan gerir oft ekki boð á undan sér en þá er gott að luma á góðu húsráði sem getur allan vanda leyst. Það er nefnilega eitt aðaleinkenni góðra húsráða að þau eru svo skemmtilega einföld að maður skilur ekkert í sér að hafa ekki fattað þau fyrr.

1. Farði í fötin. Það er fátt verra en að fá meik í fötin sín og margar flíkurnar hafa endað í ruslinu fyrir vikið. En það er til ráð! Takið raksápu og setjið á meikblettinn. Setjið síðan flíkina inn í þvottavél og hún mun verða eins og ný.

2. Lengdu líftíma banananna. Þetta þykir okkur merkilegt en það eina sem þú þarft að gera til að lengja líftíma banana er að setja plastfilmu á endann.

3. Haltu berjunum ferskum. Eitt besta húsráðið til að halda berjum ferskum er að baða þau upp úr ediksblönduðu vatni og þerra þau svo. Er þetta gamla húsráð sagt lengja vel í berjunum.

4. Náðu strikunum af gólfinu. Ein besta leiðin til að ná leiðindastrikum af gólfi er að nota tannkrem. Notaðu blautan klút eða gamlan tannbursta og burstaðu blettinn burt.

5. Finndu ferskasta eggið. Viltu vita hvort eggið sé í lagi? Settu það í glas og ef það flýtur skaltu henda því. Þá er það orðið gamalt og ekki gott til átu.

6. Skreyttu kökuna með smákökuformi. Notaðu smákökuform til að skreyta kökuna. Stráðu skrautsykri eða sambærilegu skrauti ofan í formið og það er engu líkara en kökumeistari hafi gert það.

7. Blómin vilja ekki opna sig. Þá er lítið annað að gera en að snyrta neðan af þeim. Skella þeim í volgt vatn í mínútu og setja þau síðan í vasa með köldu vatni. Þá ættu þau að opna sig á næstu 20 mínútum eða svo.

8. Búðu til þinn eigin flórsykur. Hvernig gerir maður það? Jú, það eina sem þú þarft að gera er að setja venjulegan strásykur í matvinnsluvél eða blandara og úr verður flórsykur.

9. Settu tannburstann í uppþvottavélina. Og tannburstaglasið líka. Gerðu þetta reglulega.

10. Komdu í veg fyrir að súkkulaðibitarnir sökkvi. Súkklaðibitar eiga það til að sökkva í deiginu og enda á botni kökunnar. Það er auðvitað afleitt en til er húsráð sem klikkar sjaldan og það er að þekja súkkulaðibitana með hveiti. Með því móti haldast þeir hamingjusamlega á sínum stað.

mbl.is