Himneskar litlar bláberjaskyrköku-pavlóvur

Ljósmynd/Linda Ben

Litlar pavlóvur eru mögulega lekkerasti desert sem sögur fara af. Ónefnd kona var vön að baka slíkar og geyma í frysti. Svo náði hún sér alltaf í eina og eina (stundum tvær) við hátíðleg tilefni og gæddi sér á dýrindis smáköku eins og hún kallaði það.

Hér er það Linda Ben sem sýnir listir sínar og fær hæstu einkunn fyrir. Það er nefnilega svo óhugnanlega snjallt að blanda saman tveimur kökum í eina – sérstaklega þegar það heppnast jafn fullkomlega og hér.

Kaka sem veldur ekki sykursjokki eða marengsútbrotum. Hrein tía!

Litlar bláberjaskyrköku-pavlóvur

 • 6 eggjahvítur
 • 3,5 dl sykur
 • 2 tsk. kornsterkja
 • 2 tsk. vanilludropar
 • 2 tsk. hvítt borðedik
 • 50 g Rice Crispies
 • 500 ml rjómi
 • 200 g Örnuskyr með botnfylli af bláberjum
 • 3 msk. flórsykur
 • 50 g karamellukurl
 • u.þ.b. 150 g bláber

Aðferð:

 1. Stillið ofninn á 120ºC.
 2. Notið fullkomlega hreina hrærivélarskál, setjið eggjahvíturnar í skálina og notið þeytarann.
 3. Blandið kornsterkjunni út í sykurinn, hrærið saman.
 4. Þeytið eggjahvíturnar mjög rólega fyrst, setjið 1 tsk af sykri út í eggjahvíturnar í einu á ca ½ mín fresti, aukið hraðann hægt og rólega eftir því sem þið setjið meiri sykur út í (þolinmæðisverk en þó þess virði).
 5. Blandið saman vanilludropum og hvíta borðedikinu, hellið blöndunni út í þegar eggjahvíturnar hafa náð stífum toppum og hrærið saman við í ½ mín lengur.
 6. Bætið Rice Crispies saman við og blandið saman við með sleikju.
 7. Setjið smjörpappír á ofnplötu, setjið 2 msk af marengs, sléttið úr honum og myndið eins konar skál. Gerið skálar úr öllum marengsinum en passið að hafa smá fjarlægð á milli skálanna því marengsinn stækkar örlítið í ofninum.
 8. Bakið í 40-50 mín, slökkvið svo á ofninum en ekki opna hann. Látið kökurnar kólna með ofninum. Takið þær út þegar ofninn hefur kólnað fullkomlega.
 9. Þeytið rjómann og bætið flórsykrinum saman við ásamt skyrinu, karamellukurlinu (skiljið eftir til að skreyta kökurnar með) og helmingnum af bláberjunum. Skiptið rjómanum á milli pavlóvanna, setjið örlítið af karamellukurli og bláberjum yfir.
Ljósmynd/Linda Ben
mbl.is