Einn heitasti næturklúbbur landsins til sölu

Ef þig dreymir um að vera næturklúbbseigandi þá geta draumar þínir ræst þessa dagana því sjálfur Pablo diskóbar er til sölu.

Í tilkynningu frá eigendum staðarins spá þeir miklu góðæri á næsta leiti og því sé Pabloinn kjörið viðskiptatækifæri fyrir áhugasama sem bent er á að hafa samband við Svein Andra Sveinsson hæstaréttarlögmann, sem sér um söluna.

Tilkynningin er svo hljóðandi:

„Nú þegar sér fyrir endann á 2020-ástandinu, fréttir um bóluefni á næsta leiti og allir fjármálamarkaðir rjúka upp þá er mikil bjartsýni hjá atvinnurekendum og fjárfestum um betri tíð og menn spá því að 2021 geti orðið framúrskarandi ár verslunar og veitingabransans.

Eins og menn muna varð Pablo Discobar eldsvoða að bráð í vor og hefur verið lokaður vegna framkvæmda, en það er eins með Pablo Discobar og Phoenix, þá þarf stundum að deyja til að rísa aftur upp endurfæddur, sterkari og betri en nokkru sinni áður.

Nú er framkvæmdum lokið og staðurinn hefur aldrei litið jafn vel út og styttist í að hægt sé að opna og taka á móti ástkærum fastakúnnum sem er stór hópur af skemmtilegu fólki því Pablo Discobar og Burro hafa verið einn vinsælasti bar og veitngastaður Íslands síðustu ára.

Einnig er hér um að ræða frábært fjárfestingartækifæri, því núverandi eigendur eru með tíma sinn bundinn í öðrum verkefnum og vilja eyða meiri tíma með fjölskyldum sínum og hafa því auglýst staðina til sölu og býðst því einstakt tækifæri á að eignast skemmtilegasta bar og besta suðurameríska veitingastað landsins.

Áhugasömum er bent á að hafa samband við Svein Andra Sveinsson.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert