Ómótstæðilegir ostar að hætti Höllu Báru

Ljósmynd/Gunnar Sverrisson

Í stað þess að baka heilan ost snýst þessi uppskrift um að setja saman osta til að baka og hafa góðgæti sem gleður ofan á. Hér kemur dásamlega góð samsetning sem gott er að setja ofan á en neðst í uppskriftinni er önnur og öðruvísi útgáfa sem einnig er ómótstæðilega góð.

Hugmyndir að ostum sem má nota í þennan rétt: Camembert, Stóri-Dímon, Ljótur, allir Bríe-ostar, Gullostur, Auður og svo má lengi telja. Hér er um að gera að velja sína uppáhalds-Dalaosta og setja þá saman í réttinn svo hann fái í sig einstakt bragð. Miðað við magntölur í þessari uppskrift þarf einn og hálfan ost.

Uppskrift: Halla Bára Gestsdóttir/Home & Delicious

Bakaðir ostar með góðgæti ofan á

 • 1 stk. Dala-Camembert
 • 1⁄2 stk. Stóri-Dímon
 • 3 stk. plötur smjördeig, látnar þiðna
 • 6 msk. apríkósusulta
 • 2 msk. balsamedik
 • 2 msk. hunang
 • 1 dl hunangshnetur, aðeins saxaðar
 • 1 dl pekanhnetur, aðeins saxaðar
 • 1 dl þurrkuð trönuber
 • 1 dl þurrkaðar aprikósur, skornar smærra
 • 2 stk. stilkar ferskt rósmarín
 • salt
 • chillíflögur

Aðferð:

 1. Hitið ofn í 180 gráður.
 2. Takið til ofnfast fat sem þið viljið nota.
 3. Fletjið aðeins út smjördeigsplöturnar, sníðið í fatið og látið deigið ná upp hliðarnar.
 4. Þrýstið niður og hafið engin samskeyti.
 5. Stingið deigið með gaffli.
 6. Setjið í ofn og bakið í 10 mínútur.
 7. Takið úr ofninum.
 8. Hitið sultu í potti.
 9. Setjið balsamedik og hunang saman við, hrærið.
 10. Blandið hnetunum saman við.
 11. Skerið í bita þá osta sem þið veljið.
 12. Setjið í formið með smjördeiginu.
 13. Hellið sultublöndunni yfir ostana, dreifið vel úr henni.
 14. Stráið trönuberjum og aprikósum yfir og látið meira lenda í miðjunni.
 15. Saltið og stráið chillíflögum yfir.
 16. Stingið í heitan ofninn og bakið í 10-15 mínútur eða þar til osturinn er vel bráðinn og deigið gullið.
 17. Berið fram.
mbl.is