Um 200 símtöl koma á mánuði í Píeta-símann

Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Píeta-samtakanna.
Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Píeta-samtakanna. Ljósmynd/Píeta-samtökin

Sala Góðgerðarpítsu Domino's hófst í dag en í ár rennur allt söfnunarféð til Píeta-samtakanna en að sögn Kristínar Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra þeirra hefur styrkurinn gríðarlega mikla þýðingu.

„Fólki, sem býr við mikinn sálrænan sársauka og er í sjálfsvígshættu, er nú veitt gjaldfrjáls sálfræðimeðferð eða stuðningur af fagaðilum. Við vitum að það er mikilvægt að fólk fái þá hjálp og þann stuðning sem þarf þegar fólki er farið að líða það illa að það íhugar að taka lífið sitt. Og við vitum líka að fólk þarf að komast fljótt að.

Aðstandendur þeirra sem glíma við sjálfsvígshugsanir njóta einnig stuðnings og hjá Píeta er fólk stutt áfram út í lífið. Það á enginn að fara einn í gegnum svona dimman dal,“ segir Kristín en ætlunin er að nýta fjármunina í áframhaldandi rekstur á Píeta-símanum sem er opinn allan sólarhringinn (552-2218).

Stækka hratt

Píeta-síminn er hliðarverkefni sem fór af stað fyrir tilstuðlan félagsmálaráðuneytisins sem veitti styrk í upphafi verkefnisins sem var upphaflega hugsað sem tímabundið. Nú er ljóst að Píetasíminn er kominn til að vera og er mikil þörf á honum. Um 200 símtöl koma á mánuði í hann.“

Að sögn Kristínar er margt fram undan hjá samtökunum. „Við erum að stækka svo hratt að húsið okkar er orðið of lítið. Við þurfum að finna stærra húsnæði. Einnig erum við að þróa ýmiss konar hópastarf sem mun nýtast mörgum og ólíkum hópum. Við erum líka að vinna að stóru og spennandi verkefni með Hafnarfjarðarbæ sem snýr að fræðslu í skólum.“ 

„Það er alltaf von og til okkar eru allir velkomnir. Við hjálpumst að við að finna lausnir hvort sem þær eru innan eða utan Píeta. Þetta framtak Domino’s er mikill akkur fyrir samtökin og við þökkum fyrir fram þeim sem leggja sitt af mörkum til þess að tryggja það að fólk sem glímir við sjálfsvígshugsanir geti nú fengið greiðan aðgang að þjónustu og aðstoð,“ segir Kristín og vill koma því á framfæði að síminn sé 552-5518 og eins sé hægt að senda póst á pieta@pieta.is. Meðferð og stuðningur sálfræðinga, félagsráðgjafa og iðjuþjálfa sé gjaldfrjáls og eins séu aðstandendur og syrgjendur velkomnir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert