Læknirinn bauð upp á rándýra sósu

Jólamatarblað matarvefs mbl.is og Hagkaups er komið út og þar kennir ýmissa grasa. Læknirinn í eldhúsinu fer meðal annars á kostum með forláta krónhirti sem hann eldar á sinn einstaka hátt. Með hirtinum er hann svo með sósu sem við leyfum okkur að fullyrða að sé dýrasta sósa sem birst hefur á matarvef mbl.is en í henni er meðal annars að finna 500 ml af Campofiorin rauðvíni og hálft kíló af hreindýrahakki. Þó má nota nautahakk og villibráðarkraft hafi menn ekki aðgang að hreindýrahakki.

Blaðið í heild sinni má skoða HÉR.

Kristinn Magnússon

Campofiorin-rauðvínssósa

  • 500 g nautahakk (eða hreindýrahakk en þá þarf ekki kraft)
  • villibráðarkraftur
  • ½ gulur laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • smjör/olía til steikingar
  • 500 ml Campofiorin-rauðvín (auðvitað má nota hvaða rauðvín sem er)
  • 1 greinar af timían
  • 500 ml kjúklingasoð
  • 2 msk. smjör
  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Steikið hakk og lauk í smjöri þar til það fær á sig fallega brúnan lit. Saltið og piprið.
  2. Undir lok steikingarinnar á kjötinu og lauknum bætið þið smátt skornum hvítlauk saman við og látið steikjast í nokkrar mínútur.
  3. Gætið þess að brenna ekki laukinn eða hvítlaukinn.
  4. Bætið rauðvíninu saman við og sjóðið upp ásamt timíangreininni – og sjóðið niður þannig að það séu ekki nema kannski 50-70 ml af víni eftir á pönnunni.
  5. Bætið næst kjúklingasoðinu saman við og sjóðið upp og síðan niður um rúmlega helming.
  6. Síið sósuna í annan pott og bætið smjöri, litlu í senn, saman við á meðan þið hrærið jafnt og þétt. Þannig fær sósan á sig fallegan gljáa og aukna þykkt.
  7. Saltið og piprið eftir smekk.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert