Nýtt lakkríssúkkulaði frá súkkulaðigerðinni Omnom

Ljósmynd/Omnom

Omnom leggur ást og alúð í súkkulaðigerð sína, en í dag kemur út uppfærð uppskrift að súkkulaðistykkinu Lakkrís + Raspberry. 

„Þegar Lakkrís + Raspberry kom út snemma á síðasta ári héldum við áfram að prófa okkur áfram með uppskriftina,“ segir Kjartan Gíslason súkkulaðigerðarmaður og einn stofnenda Omnom. „Við prufuðum í einni lögun að fjarlægja hindberin úr uppskriftinni sjálfri og voila! Með því að leyfa lakkrísrótinni að njóta sín betur varð til súkkulaði sem er mun bragðbetra og kremaðra,“ segir Kjartan og heldur áfram: „Við ákváðum að halda þurrkuðum hindberjum sem við stráum ofan á súkkulaðið og útkoman er að okkar mati fullkomin.“

Í gær kom svo út glæsileg gjafaaskja frá Omnom sem ber heitið Love Collection. 

Í öskjunni má finna tvenns konar súkkulaði, annars vegar Sea Salted Toffee og hins vegar hið nýja Lakkrís + Raspberry.

Gjafaaskjan er frábær gjöf fyrir valentínusar- og konudaginn sem fram undan eru. Askjan fæst í vefverslun Omnom og verslun þeirra úti á Granda. Hún mun einnig vera fáanleg í verslunum Hagkaups innan skamms. 

Um Love Collection:

Tvær súkkulaðitegundir, tveir bragðtónar  svo ólíkir að í fyrstu virðist ekkert sameina þá. Þegar nánar er litið er það einmitt það sem sameinar þá: Einn saltur og annar súr. Tveir andstæðir pólar sem ná fullkomlega saman, rétt eins litbrigði ástarinnar.

Sea Salted Toffee 

Við elskum karamellusúkkulaði en að búa til hina fullkomnu karamellu getur verið snúið. Við höfum leikið okkur með þessa uppskrift í langan tíma. Til að ná fram karamellubragðinu bökuðum við mjólkina í sólarhring eða þar til hún tók á sig rjómakenndan karamellukeim sem minnir einna helst á Dulce de leche. Því næst stráðum við yfir súkkulaðið sjávarsalti frá Saltverki til þess að fullkomna bragðið sem við leituðum að. Útkoman er þessi karamellukenndi draumur, Sea Salted Toffee.

Lakkrís + Raspberry 

Innblásturinn fyrir þetta sérstaka súkkulaði er ekki sóttur í íslenska náttúru eða framandi hráefni heldur nammibarinn. Það er eitthvað algjörlega einstakt við þessa súru, söltu og sætu blöndu sem er með öllu ómótstæðileg. Við möluðum lakkrísrót sem við síðan blönduðum saman við lífrænt kakósmjör og úr varð þessi magnaða blanda. Að lokum stráðum við extra miklu af hindberjum yfir til að fanga lakkrís de résistance! Þetta er Lakkrís + Raspberry.

Ljósmynd/Omnom
Ljósmynd/Omnom
mbl.is