Danskir dagar hefjast í dag

Ein skemmtilegasta matarhátíð landsins er tvímælalaust Danskir dagar í Hagkaup þar sem boðið er upp á kynstrin öll af dönsku hnossgæti. Í ár er þörfin mögulega öllu meiri vegna ferðatakmarkana og því getur landinn huggað sig við að fá nú dýrindis danskar nautasteikur, ferskar flodebollur, pylsur, sinnep, sælgæti og svo ótalmargt fleira.

Dönsku dagarnir hefjast formlega í dag en í tilkynningu frá Hagkaup segir að margt spennandi sé á boðstólnum í ár.

„Það sem einna helst ber að nefna eru hinar spennandi fersku nautasteikur frá danska merkinu Danish Crown. Fyrirtækið er stærsti kjötframleiðandi Evrópu og þykja vörur þess einstakar að gæðum. Í boði eru Rib-eye og nautalund sem hafa lengi notið vinsælda á Íslandi en nú bætist New York Strip í hóp þeirra: Frábær jafnþykk sneið sem margir kannast við sem stærri hlutann af T-bone-steik og er auðvelt að elda fullkomlega.

Ein vinsælasta varan á dönsku dögunum undanfarin ár hefur verið dönsku pylsurnar, pylsubrauðin og dressingarnar. Allt sem þarf fyrir ekta danska pylsuveislu sem slær í gegn hjá öllum aldurshópum. Þá eru sívinsælu dönsku brauðsalötin á sínum stað, mikið úrval af ostum, kanilsnúðar, rúllupylsur og allt þar á milli. Danskt sælgæti á stóran þátt, bæði klassískt nammi eins og Spunk Vingummi, Gajol og brjóstsykrar, en einnig spennandi nýjungar. Má þar sérstaklega nefna unaðslegar flodeboller frá Spangsberg sem eru hreinlega af öðrum heimi, svo góðar eru þær.

Það er ekki hægt að tala um Danska daga án þess að minnast á eina stærstu stjörnuna, sjálft smørrebrød-ið. Ekta danskt smørrebrød með lifrarkæfu, beikonsultu, smjörsteiktum sveppum og sítrusrauðlauk. Þetta ljúffenga smørrebrød var einnig í boði í fyrra á Dönsku dögunum og fengu færri en vildu, svo mikil var eftirspurnin. Því var ákveðið að bæta í framleiðsluna og hvetjum við alla til að næla sér í. Einnig verður í boði blandaður bakki með þremur vinsælustu smurbrauðunum í einum pakka, roastbeef, hangikjöti og rækjum.“

Danskir dagar standa yfir í Hagkaup 11.-21. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert