Kakan sem sigraði 400 kökur

Ljósmynd/Albert Eiríksson

Árið 1967 héldu Johnson & Kaaber og Pillsbury Best bökunarkeppni þar sem vel á fjórða hundrað uppskriftir bárust. Bryndís Brynjólfsdóttir á Selfossi sigraði með rúgbrauðstertu sem þótti engu lík. „Foreldrar mínir annast rekstur Tryggvaskála og ég hef bakað fyrir hótelið í þó nokkur ár. Þessa uppskrift fékk ég hjá vinkonu minni, ég veit ekki hvaðan hún fékk hana,“ sagði Bryndís og því skulum við kenna uppskriftina við Bryndísi og Tryggvaskála.

Það voru heiðurshjónin Anna Guðný Guðmundsdóttir og Sigurður Ingvi Snorrason sem bökuðu tertuna fyrir Albert Eiríksson sem deildi henni svo á matarblogginu sínu Albert eldar. Hann segir þau hjón vera mikla sælkera og afar flink í eldhúsinu. „Þau baka reglulega rúgbrauðstertuna frægu sem vann til verðlauna fyrir margt löngu eins og mamma Önnu, Aagot Árnadóttir, sem hefur boðið upp á hana í áratugi við mikla ánægju fjölskyldunnar,“ segir Albert.

Rúgbrauðstertan

Botn

 • 4 egg
 • 200 g sykur
 • 125 g rúgbrauð, rifið
 • 1 msk. kartöflumjöl
 • 60 g hveiti
 • 1 1/2 tsk. lyftiduft

Fylling

 • 1-2 bananar, skornir í sneiðar
 • 3 rifin epli
 • safi úr 1/2 sítrónu
 • 50 g rifið súkkulaði
 • 2 dl rjómi, þeyttur

Skreyting

 • 2 dl rjómi, þeyttur
 • súkkulaði

Botn: Þeytið vel saman egg og sykur. Bætið við rúgbrauði, kartöflumjöli, hveiti og lyftidufti. Bakið í tertuformi við 200°C í 10-15 mín. Látið kólna.

Fylling: Blandið öllu saman við þeytta rjómann og setjið yfir tertuna.

Skreyting: Setjið rjómann yfir og á hliðarnar og skreytið með súkkulaði.

- - -

Fylgstu með Mat­ar­vefn­um á In­sta­gram og Face­book. Enda­laus æv­in­týri, hug­mynd­ir, skemmti­leg­ir leik­ir og allt það heit­asta heita ...

Svo megið þið endi­lega tagga okk­ur á In­sta­gram þegar þið eruð að elda eitt­hvað spenn­andi @mat­ur.a.mbl

Ljósmynd/Albert Eiríksson
mbl.is