Grillað lambalæri með villisveppafyllingu

Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Á dögunum kom út bókin GRILL eftir þá Hinrik Örn Lárusson og Viktor Örn Andrésson. Bókin er einstaklega vegleg og eiguleg og inniheldur fjölda uppskrifta sem matgæðingar ættu ekki að láta fram hjá sér fara. Hér er á ferðinni skemmtileg uppskrift að grilluðu lambalæri með villisveppafyllingu sem ætti að vekja lukku á veisluborðinu.

Grillað lambalæri með villisveppafyllingu Lambalæri
  • 2,5-3 kg úrbeinað lambalæri
  • 250-300 g villisveppafylling
  • 5-6 msk. black garlic marinering
  • 2 hvítlauksgeirar
  • Nokkrar greinar ferskt rósmarín og garðablóðberg (timjan)
  • Bindigarn
  • Salt og pipar eftir smekk
Undirbúningur á lærinu:

Penslið lærið að innanverðu með gerjuðu hvítlauksmarineringunni, komið fyllingunni vel fyrir inni í lærinu. Bindið lærið vel upp með garninu þannig að fyllingin haldist á sínum stað. Stingið nokkur lítil göt (um 7-8 göt) í lærið með litlum, beittum hníf. Skerið hvítlaukinn í 4-5 bita og setjið ofan í götin ásamt rósmaríni og garðablóðbergi (timjan).

Kryddið með salti og pipar fyrir grillun.

Grillun

Gott er að leyfa lærinu að standa á borði í 2-3 klukkustundir áður en það er grillað til að ná stofuhita.

Hitið grillið vel upp og grillið lærið á öllum hliðum (um 4 mínútur á hverri hlið) til að loka því. Lækkið hitann á grillinu í um 90-120°C og eldið lærið annaðhvort á óbeinum hita eða á efri grindinni á grillinu. Notið kjarnhitamæli og takið lærið af þegar hann sýnir 55-58°C. Leyfið lærinu að hvíla í 10-15 mínútur. Hægt er að skerpa á hitanum á lærinu með því að setja það inn í 160°C heitan ofn í um 2 mínútur.

Berið svo fram með meðlæti og sósum sem henta.

Villisveppafylling

  • 100 g flúðasveppir
  • 50 g þurrkaðir villisveppir 200 g frosnir villisveppir
  • 1 msk. olía
  • 1 msk. smjör
  • 2 laukar skornir í þunnar sneiðar
  • 1 bolli rauðvín eða marsalavín
  • 2 msk. fljótandi villisveppakraftur
  • 5-6 msk. brauðrasp
  • 2 bollar rjómi

Aðferð:

Steikið flúðasveppi, villisveppi, lauk og þurrkaða villisveppi á pönnu upp úr olíu og smjöri í um 10 mínútur. Bætið við víni og sjóðið niður um helming. Setjið þá rjóma út í og hitið að suðu.

Maukið sveppablönduna í matvinnsluvél, blandara eða með töfrasprota, bætið þá krafti og brauðraspi saman við og sjóðið saman.

Smakkið til með salti og pipar.

Brokkólísalatið hennar mömmu

  • 1 brokkólíhaus (ekki stilkarnir)
  • 1/2 rauðlaukur
  • 50 g trönuber
  • 50 g sýrður rjómi
  • 150 g majónes
  • 1 msk. hunang
  • Sítróna
  • Salt

Saxið brokkólíið smátt og skerið rauðlauk fínt í litla bita. Setjið í skál. Hrærið saman sýrðum rjóma, majónesi og hunangi í annarri skál. Blandið því næst grænmetinu saman við. Smakkið til með salti og sítrónusafa.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert