Dill heldur Michelin-stjörnunni

Gunnar Karl Gíslason á Dill spáir fleiri Michelin stjörnum til …
Gunnar Karl Gíslason á Dill spáir fleiri Michelin stjörnum til landsins á næsta ári. Eggert Jóhannesson

„Þetta voru algjörlega frábær tíðindi,“ segir Gunnar Karl Gíslason, veitingamaður á Dill, en staðurinn hlaut í vikunni Michelin-stjörnu, annað árið í röð.

Nýr listi Michelin yfir þá veitingastaði sem þykja skara fram úr á Norðurlöndum var kynntur í tónlistarhúsinu í Stafangri og fimm íslenskir staðir komast á listann þetta árið. Dill er eini íslenski staðurinn sem hlýtur Michelin-stjörnu en fjórir staðir hljóta sérstök meðmæli. Þeir eru Matur og drykkur, Moss og systurstaðirnir Óx og Sumac.

Dill var fyrsti veitingastaðurinn á Íslandi sem hlaut Michelin-stjörnu. Það var árið 2017 en staðurinn missti svo stjörnuna árið 2019. Þá sneri Gunnar Karl aftur úr útlegð í New York og einsetti sér að endurheimta stjörnuna. Það tókst í fyrra og nú heldur Dill stjörnunni eftirsóttu.

„Þetta er ótrúlega sætt eftir þetta erfiða ár sem allir eru búnir að fara í gegnum. Ekki bara fyrir mig, þetta er búið að vera erfitt ár fyrir alla í veitingageiranum með allskonar lögum, reglum og takmörkunum,“ segir Gunnar.

Hann segir aðspurður að þrátt fyrir erfiðleika vegna kórónuveirunnar hafi starfsfólk Dill alltaf stefnt á að tryggja sér stjörnuna. „Ég átti alveg eins von á þessu enda er þetta í samræmi við þau markmið sem við setjum okkur. Sem betur fer náðum við þessu markmiði. En hafandi sagt það hefur þetta verið svo stórundarlegt ár að það myndi ekkert koma manni á óvart.“

Gunnar hrósar starfsfólki veitingahússins og segir það hafa sýnt mikla þrautseigju á erfiðum tímum. „Það á allt hrós skilið. Þrátt fyrir allt þetta Covid-dæmi voru allir fókuseraðir og við pössuðum alltaf upp á hlutina. Það var allt gert upp á tíu. Við lokuðum heldur aldrei staðnum þó við hefðum skertan afgreiðslutíma eins og aðrir. Menn mættu og gerðu alltaf sitt besta.“

Gunnar tekur undir þá fullyrðingu að við Íslendingar megum ágætlega við una að skarta Michelin-veitingastað og að mælt sé með fjórum öðrum stöðum að auki. „Það held ég sannarlega. Ég get ekki betur séð en að allt sé upp á við héðan í frá. Ég myndi meira að segja veðja upp á að það bætist við stjörnur á næsta ári.“

Af öðrum tíðindum úr Michelin-listanum má geta þess að veitingastaðurinn Koks í Færeyjum heldur sínum tveimur stjörnum. Noma í Kaupmannahöfn, sem oft hefur verið talið meðal bestu veitingahúsa heims, hlaut hins vegar þrjár Michelin-stjörnur í fyrsta sinn. Norska veitingahúsið Maaemo endurheimti þrjár stjörnur sínar sem það missti í fyrra eftir flutninga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert