Jakob á Horninu sendir frá sér merkilega kokkabók

Fjölskyldan. Aftari röð frá vinstri: Ellý Ármanns, Hlynur Sölvi Jakobsson,Gabriel …
Fjölskyldan. Aftari röð frá vinstri: Ellý Ármanns, Hlynur Sölvi Jakobsson,Gabriel Sölvi Hlynsson, Anika Eik Hlynsdóttir, Jakob Reynir Jakobsson, Jóhannes Tryggvason, Ólöf Helga Jakobsdóttir, Valgerður Jóhannsdóttir og Jakob H. Magnússon. Í fremri röð eru börn Ólafar og Jóhannesar, frá vinstri: Sölvi, Svanhildur og Valgerður Jakobína Ljósmynd/Hreinn Magnússon

Matreiðslumenn breiða gjarnan út boðskapinn með bókum um réttina og Jakob H. Magnússon hefur lengi ætlað sér að feta í fótspor kollega á þeim vettvangi, en bókin Hittumst á horninu, sem Atli Rúnar Halldórsson skrifaði fyrir hann, er með öðrum hætti en til stóð.

„Hugmyndin var að gefa út kokkabók með uppskriftum, en úr varð þessi bók, saga um það sem þetta gamla og merkilega hús hefur haft að geyma með uppskriftum í bland,“ segir hann.

Húsið á horni Hafnarstrætis og Pósthússtrætis er með elstu byggingum Reykjavíkur, byggt 1898. Starfsemi í húsinu er rakin í máli og myndum í bókinni með áherslu á Veitingahúsið Hornið, sem frændurnir Jakob og Guðni Erlendsson stofnuðu og opnuðu opinberlega 23. júlí 1979, fjölskylduna og hliðarstarfsemi hennar.

„Ég er mjög ánægður og kúnnunum finnst líka gaman að sjá að komin sé út bók um staðinn,“ heldur Jakob áfram. Hann segist alltaf hafa vitað að hann væri í merkilegu húsi en ekki gert sér grein fyrir allri starfseminni á árum áður fyrr en hann fór að huga að efnistökum.

Listamenn úr öllum áttum

Hugmynd frændanna fyrir rúmum 40 árum var að opna ítalskan veitingastað, en þegar litið er yfir farinn veg fjölskyldunnar má sjá að auk áherslu á mat og matarlist hefur mannlífið verið ræktað á ýmsum öðrum sviðum í húsinu.

„Þetta hefur þróast í alhliða menningarhús hjá okkur,“ segir Jakob. „Guðni frændi var með leirkeraverkstæði og með margt listafólk í kringum sig. Þetta fólk hjálpaði okkur við að búa staðinn til og eitt leiddi af öðru.“

Á borði nr. 1. Þaulsætnir MA-ingar, frá vinstri: Atli Rúnar …
Á borði nr. 1. Þaulsætnir MA-ingar, frá vinstri: Atli Rúnar Halldórsson, Páll Gíslason, Bjarni Daníelsson, Stefán Stefánsson og Eiríkur Baldursson. Ljósmynd/Hreinn Magnússon

Margt hefur breyst frá því á áttunda áratug liðinnar aldar og það sem þykir nú sjálfsagt var jafnvel ekki til í huga fólks. Gallerý Djúpið var fljótlega opnað í kjallara Hornsins og þar var síðar vinsæll leiklistar- og djassstaður. „Menningarlífið var fábrotið á þessum árum og til dæmis buðu bara tveir staðir upp á lifandi djass, Stúdentakjallarinn og svo Djúpið,“ rifjar Jakob upp.

„Mér finnst ekki vera svo langt síðan en það var nánast ekkert í gangi.“ Útlit Hornsins hafi líka stungið í stúf með stórum gluggum og engum gardínum, þegar vakið athygli og æ síðan notið vinsælda. „Fólki fannst allt þetta nýja strax spennandi og skemmtilegt og við fengum góðar móttökur. Í fjölmiðlum var til dæmis skrifað um suðræna stemningu í Reykjavík og það er lýsandi dæmi um jákvæða andann sem ríkti.“

Nýjung í matargerð féll í kramið og Jakob hefur haldið í hefðirnar. „Pítsurnar urðu strax mjög vinsælar og sama má segja um sjávarréttapönnuna og lasagna. Reyndar þurftum við að útskýra fyrir fólki hvað lasagna var. Sniglarnir urðu strax vinsælir og Camenbert-osturinn er enn á sínum stað.“

Tónninn í matargerðinni var sleginn þegar Jakob vann sem messagutti á strandferðaskipinu Heklu. „Ég hef eiginlega aldrei gert neitt annað en að búa til mat,“ segir hann. „Þetta er alltaf jafn gaman og tími var kominn á kokkabók, þó óvenjuleg sé.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert